„Það komu þarna ráðherra, landlæknir og fulltrúar Landspítalans og gerðu okkur grein fyrir þessari alvarlegu stöðu sem komin er upp,“ segir Ásmundur í samtali við Vísi.
Sjá einnig: Fjármálaráðuneytið vekur athygli á umframlaunahækkun ljósmæðra
Þá hafi verið farið yfir verstu mögulegu niðurstöðu úr kjaradeilunni, sem Ásmundur segir felast í áframhaldandi uppsögnum, yfirvinnubanni auk þess sem áhrifin gætu farið að teygja anga sína út fyrir höfuðborgarsvæðið.
„Nú einskorðast þetta fyrst og fremst við Landspítalann en þetta mun teygja sig til annarra byggða. Við höfum áhyggjur af þessu,“ segir Ásmundur.
Fundurinn hafi þó verið góður og upplýsandi, að sögn Ásmundar, og þá hvetji velferðarnefnd deiluaðila til að ljúka samningum.
Síðasti sáttafundur í kjaradeilu ljósmæðra var hjá ríkissáttasemjara síðast liðinn fimmtudag og hefur ekki verið boðað til annars fundar fyrr en á næsta fimmtudag. Deiluaðilar segja samninga á byrjunarreit eftir að undirritaður samningur var felldur í síðasta mánuði. Tólf ljósmæður hafa þegar hætt störfum á Landspítalanum en átján uppsagnir til viðbótar taka gildi á næstu þremur mánuðum.
