Erlent

Kallar eftir rannsókn á öryggi hoppukastala

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ava-May Littleboy lést á sunnudag.
Ava-May Littleboy lést á sunnudag. BBC
Breskur þingmaður kallar eftir því að hoppukastalar og önnur uppblásin leiktæki verði tímabundið bönnuð í landinu. 

Þriggja ára stúlka lést eftir að hafa kastast um sex metra upp í loftið þegar hoppukastali sprakk á strönd í Norfolk í austurhluta Englands á sunnudag. Önnur stúlka, sem var sjö ára, lét lífið þegar hoppukastali fauk í sterkri vindhviðu við Harlow árið 2016.

Sjá einnig: Stúlka lét lífið eftir að hoppukastali sprakk

Þingmaðurinn Robert Halfon kallar eftir tafalausri rannsókn á þeim reglum og lögum sem gilda um notkun og viðhald á hoppuköstulum í Bretlandi.

„Það ætti að setja tímabundið bann á notkun hoppukastala og annarra uppblásinna leiktækja á opnum svæðum, þangað til að við getum verið viss um að þau séu örugg,“ er haft eftir Halfon á vef breska ríkisútvarpsins.

Hann bætir við að tvö andlát á tveggja ára tímabili undirstriki mikilvægi þess að bregðast við vandanum. Því sé réttast að byrja á að kafa ofan í regluverkið sem umlykur hoppukastalanotkun. „Við getum ekki hætt á að eitthvað þessu líkt gerist aftur.“

Fjölmargir hafa minnst hinnar þriggja ára gömlu Ava-May Littleboy, sem lést á sunnudag. „Hún var engin venjuleg stelpa, hver sá sem kynntist henni mun aldrei geta gleymt henni,“ segja fjölskyldumeðlimir hennar.

Blóm og leikföng hafa verið lögð í sandinn þar sem Littleboy lést. Fjölmargir voru að njóta sólarinnar á ströndinni þegar slysið varð. Sjónarvottar segja að kastalinn hafi „sprungið“ og við það hafi stúlkan kastast upp í loftið. Sjúkralið var mætt á staðinn um fjórum mínutum eftir að fyrstu tilkynningar bárust neyðarlínu.

Blóm og leikföng hafa verið lögð við hoppukastalann sem sprakk, til minningar um Littleboy.BBC

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×