Erlent

Alræmdur svikahrappur handtekinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mark Acklom hafði farið huldu höfði í Sviss.
Mark Acklom hafði farið huldu höfði í Sviss. PA
Breskur maður sem hefur verið á flótta undan laganna vörðum var handtekinn í Sviss á laugardag. Maðurinn var ofarlega á lista breskra stjórnvalda yfir eftirlýsta glæpamenn eftir að hafa svikið umtalsverðar fjárhæðir af fyrrverandi ástkonu sinni. Maðurinn, Mark Acklom, þóttist vera bankastarfsmaður og spæjari og tókst þannig að sannfæra konuna um að láta sér í té allt sparifé hennar.

Maðurinn var handtekinn í Zürich í sameiginlegri aðgerð breska og svissneskra lögregluyfirvalda. Hann dvelur nú í svissneskum fangaklefa þangað til að hann verður framseldur til Bretlands.

Leitað hafði verið á Acklom frá því að konan, hin 61 árs gamla Carolyn Woods, greindi lögreglu frá svikamyllu mannsins. Hann hafði tjáð konunni að hann væri njósnari á vegum MI6 ásamt því að starfa í svissneskum banka. Konan féll fyrir manninum og áttu þau í ástarsambandi um nokkurra ára skeið. Meðan á sambandi þeirra stóð tókst Acklom að hafa um 850 þúsund pund, næstum 120 milljónir króna, af sparifé konunnar - sem hann sagðist ætla að nota til að gera upp hús í bresku borginni Bath.

Þess í stað stakk hann af með peninganna og fór á flakk um Evrópu. Hann var að lokum handtekinn í íbúð í Sviss sem fyrr segir eftir alþjóðlegar lögregluaðgerðir. Hann hafði búið í íbúðinni undir fölsku nafni.

Á vef Guardian er haft eftir lögreglumönnum að þeir séu stoltir af handtökunni. Það að geta haft hendur í hári jafn eftirlýsts manns staðfesti að samvinna og fagmennska geti stöðvað hvaða glæpamann sem er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×