Erlent

Afmælisbarnið látið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglumenn girtu af veislusvæðið.
Lögreglumenn girtu af veislusvæðið. Vísir/AP
Þriggja ára stúlka í Idaho, sem stungin var í afmælisveislu sinni á laugardagskvöld, lést af sárum sínum. Maður réðst inn í veisluna og náði að stinga níu manns áður en hann var yfirbugaður.

Maðurinn, Timmy Kinner, hefur verið ákærður fyrir að stinga börnin og foreldra þeirra, sem reyndu að koma börnunum til bjargar. Árásin átti sér stað í fjölbýlishúsi, en í frétt Guardian kemur fram að íbúar hússins séu nær alfarið flóttamenn.

Hin særðu eru frá Sýrlandi, Írak og Eþíópíu en Kinner sjálfur er bandarískur. Engu að síður telur lögreglan í borginni að ekkert bendi til þess á þessari stundu að um hatursglæp sé að ræða. Hann var leiddur fyrir dómara í gær en sagðist ekki skilja fyrir hvað hann væri ákærður. Þar að auki sagðist Kinner ekki þurfa lögmann, hann hefði í hyggju að verja sig sjálfur.

Sjá einnig: Sex börn í hópi særðra eftir stunguárás í Idaho

Kinner er sagður hafa búið í húsinu en að hann hafi verið borinn út á föstudag vegna hegðunarvandamála. Talið er að árás hans á veislugestina hafi því verið einhvers konar hefndaraðgerð. Þrír þolendur mannsins eru fullorðnir en hinir eru börn; fyrrnefnd þriggja ára stúlka, tveir eru 4 ára, einn 6 ára, annar 8 ára og síðasti þolandinn er 12 ára.

Lögreglumenn segja að Kinner hafi ekki þekkt þolendur sína. Svo virðist sem hann hafi einungis ætlað sér að ráðast á hvern þann íbúa hússins sem á vegi hans varð.

Verði Kinner fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér dauðadóm. Ekki liggur þó fyrir á þessari stundu hvort að saksóknari fari fram á svo þungan dóm, ákvörðun um það verði tekin þegar allar staðreyndir málsins liggja fyrir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×