Viðskipti innlent

Guðbjörg Matthíasdóttir greiddi sér 3,2 milljarða í arð úr félagi sínu

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Guðbjörg M. Matthíasdóttir á ársfundi LÍÚ á sínum tíma.
Guðbjörg M. Matthíasdóttir á ársfundi LÍÚ á sínum tíma. VISIR/ANTON
ÍV fjárfestingafélag ehf., eigandi Ísfélags Vestmannaeyja eins stærsta útgerðarfélags landsins, greiddi út rúma 3,2 milljarða króna í arð til eiganda síns í fyrra. Fjárfestingafélagið er í eigu Fram ehf. sem aftur er að langstærstum hluta í eigu athafnakonunnar Guðbjargar M. Matthíasdóttur.

Þetta kemur fram í nýjum ársreikningi ÍV fjárfestingafélags fyrir árið 2017. Félagið skilaði ríflega 630 milljóna króna hagnaði og eigið fé þess nam í árslok 2017 ríflega 13,6 milljörðum króna. Helsta og svo til eina eign þess er ríflega 80 prósenta hlutur í útgerðarfélaginu Ísfélagi Vestmannaeyja.

Í síðasta mánuði var greint frá því að Ísfélag Vestmannaeyja hefði skilað 4,2 milljóna dala hagnaði, jafnvirði 440 milljóna króna, á síðasta ári. Það reyndist nokkur samdráttur frá fyrra ári þegar hagnaðurinn nam 16,7 milljónum en neikvæður gengismunur upp á nærri 9 milljónir dala litaði afkomuna. Útgerðarfélagið greiddi þó alls 15 milljónir dala, um 1,6 milljarða króna, í arð til hluthafa í fyrra.

Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa í umræðunni um frumvarp um lækkun veiðigjalds, sem fyrr, kvartað undan skaðsemi gjaldanna á reksturinn samhliða lakari afkomu, miklum kostnaðarhækkunum og sterkara gengi. Ekki tókst að afgreiða frumvarpið sem vakti hörð viðbrögð þegar það kom fram.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, segir erfitt að búa til meginreglu út frá einu fyrirtæki, sem virðist ekki á vonarvöl þrátt fyrir veiðigjöldin.

„Ég held að stóra myndin sé sú að það þarf að halda áfram að reka öflugan sjávarútveg, en það er öllum ljóst að það þarf að borga sanngjarnt auðlindagjald, þannig að þjóðin fái réttmætan arð í sinn hlut,“ segir Þorgerður Katrín.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×