Innlent

Vinnu­eftir­litið lokaði her­bergjum á lungna­deild Land­spítalans

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Um er að ræða erbergi á lungnadeild spítalans í Fossvogi.
Um er að ræða erbergi á lungnadeild spítalans í Fossvogi. vísir/vilhelm
Vinnueftirlitið hefur lokað tveimur herbergjum á lungnadeild Landspítalans í Fossvogi meðal annars vegna rakaskemmda og fúkkalyktar. Frá þessu er greint á vef Vinnueftirlitsins en annars vegar er um að ræða vaktherbergi 618 og lyfjaherbergi merkt 626.

Samkvæmt ákvörðun Vinnueftirlitsins er öll vinna bönnuð í herbergjunum þar sem líf og heilbrigði starfsmanna er talin hætta búin, uns búið er að gera úrbætur, en vinna má að þeim þrátt fyrir bannið.

Vinnueftirlitið fór í eftirlitsheimsókn á lungnadeildina í lok janúar. Í skoðunarskýrslu er að finna lýsingu og mat á aðstæðum. Segir meðal annars að í lyfjaherbergi séu sjáanlegar rakaskemmdir auk þess sem að þar sé megn fúkkalykt.

Þá var búið að brjóta gat á forskalaðan vegg þannig að hægt var að sjá rör í  veggnum. Veggir virtust vera klæddir með tjörupappa að innan sem leit mun verr út í nágrenni við rörin en fjær. Gæti það verið vísbending um langvarandi leka.

Hinu megin við vegginn var svo aðstaða deildarritara og vaktherbergi. Í þeim rýmum hefur fundist megn lykt öðru hverju síðan í nóvember í fyrra.

Eru það fyrirmæli frá Vinnueftirlitinu að öllum starfsmönnum á lungnadeild skuli boðið að fara í heilsufarsskoðun með tilliti til áhrifa frá myglusvepp.

Vinnueftirlitið veitir spítalanum frest til 28. febrúar til að tilkynna um úrbætur og útfærslur á þeim í tengslum við rakaskemmdirnar í lyfjaherberginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×