Viðskipti innlent

Kaupréttur á hlut ríkisins í Arion banka fortakslaus

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að kaupréttur Kaupskila á hlut ríkisins í Arion banka væri „fortakslaus.“ Ríkinu er skylt að selja hlut sinn í Arion banka samkvæmt ákvæði um kauprétt í hluthafasamkomulagi frá 2009.

Kaupskil er dótturfélag eignarhaldsfélagsins Kaupþings en félagið á 57 prósenta hlut í Arion banka. Í síðustu viku var greint frá því að Kaupskil hygðist nýta sér kauprétt á 13 prósenta hlut ríkisins í Arion banka á 23,4 milljarða króna. Bankasýsla ríkisins sendi í dag tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um að selja Kaupskilum hlut ríkisins í samræmi við kaupréttinn.

Kauprétturinn kemur fram í hluthafasamkomulagi sem gert var á milli Nýja Kaupþings, þ.e. Arion banka, Kaupskila og ríkisins 3. september 2009 vegna stofnfjármögnunar Arion banka. Þar segir: „Kaupskil skal hafa kauprétt á hlutabréfum ríkisins þar sem Kaupskil hefur rétt til að kaupa hlutabréf ríkisins í Nýja Kaupþingi (Arion banka innsk.blm).“

Orðin „skal hafa (e. shall have)“ í texta hluthafasamkomulagsins eru ekki undirorpin túlkun og fela í sér skyldu fyrir ríkið. Í umræðu síðustu daga hefur verið gefið í skyn að ríkissjóður geti hafnað kaupréttinum.

Eins og hann er orðaður í texta samningsins er ljóst að um er að ræða skyldu til afhendingar á hlutabréfum miðað við ákveðnar forsendur um verð sem höfðu verið teknar út þegar hluthafasamkomulagið var birt á sínum tíma.

Ljóst er að ef ríkið myndi hafna virkjun kaupréttarins væri það í raun að brjóta ákvæði hluthafasamkomulagsins. Kauprétturinn er svokallaður "call option." Þetta eru í raun sambærileg réttindi og kaupréttir sem stjórnendur fjármálafyrirtækja fá til kaupa á hlutabréfum.

Logi Einarson formaður Samfylkingarinnar spurði forsætisráðherra út í nýtingu kaupréttarins í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

„Þegar ríkið ákvað að setja framlag inn í Arion banka upp á 9,8 milljarða króna þá var þetta kaupréttarákvæði sett inn sem snýst um að að þessi aðili getur kosið að kaupa ríkið út úr Arion banka á hverjum þeim tímapunkti sem kann að koma upp. Það er að segja, kauprétturinn er fortakslaus, honum má ekki rugla saman við forkaupsrétt sem hefur auðvitað líka verið töluvert til umræðu hér í þessum sal,“ sagði Katrín Jakobsdóttir. 


Tengdar fréttir

Ætla að nýta kauprétt á hlut ríkisins í Arion banka

Kaupskil, dótturfélag Kaupþings ehf, hefur tilkynnt Bankasýslu ríkisins um að félagið hyggist nýta sér kauprétt á kauprétt á þrettán prósent hlut ríkisins í Arion banka hf. Kaupverðið er 23,4 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×