Innlent

Mála fyrstu gleðirendurnar til að marka upphaf Hinsegin daga

Atli Ísleifsson skrifar
Stjórn Hinsegin daga.
Stjórn Hinsegin daga. Mynd/hinsegin dagar
Hinsegin dagar í Reykjavík hefjast klukkan 12 á hádegi þegar stjórn Hinsegin daga ásamt Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Reykjavíkur, mála fyrstu gleðirendurnar á Skólavörðustíg í miðborg Reykjavíkur.

Í framhaldinu verður Skólavörðustígur, frá Bergstaðastræti að Laugavegi/Bankastræti, málaður í öllum litum regnbogans af gestum og gangandi undir leiðsögn starfsfólks Reykjavíkurborgar. Stjórn Hinsegin daga hvetur gesti á öllum aldri til að mæta og taka þátt í opnun hátíðarinnar.

Hinsegin dagar hafa verið haldnir árlega í Reykjavík frá árinu 1999 og hefur hátíðin vaxið og dafnað með hverju ári. Í ár standa Hinsegin dagar frá 7. til 12. ágúst og á dagskránni eru ríflega 30 viðburðir af ýmsum toga.

„Hinsegin dagar ná hápunkti sínum laugardaginn 11. ágúst með gleðigöngu og útihátíð. Að þessu sinni fer gleðigangan frá Sæbraut við tónlistarhúsið Hörpu að Hljómskálagarðinum þar sem útihátíð ársins fer fram.

Undanfarin ár hafa um 70.000-100.000 gestir tekið þátt í dagskrá Hinsegin daga í tengslum við gleðigönguna og búast skipuleggjendur við miklum mannfjölda í ár enda veðurspáin góð,“ að því er fram kemur í tilkynningu frá stjórn Hinsegin daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×