Bæjarstjórn Garðabæjar felldi á fimmtudag tillögu um að fella bifreiðahlunnindi Gunnars Einarssonar bæjarstjóra Garðabæjar úr ráðningarsamningi hans.
Líkt og Fréttablaðið greindi frá í vikunni gagnrýndi Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans, laun bæjarstjórans og þá staðreynd að áfram verði honum séð fyrir Toyota Land Cruiser jeppa á kostnað bæjarins. Ingvar lagði því til að fella þessi bifreiðahlunnindi út enda væri um að ræða óþarfa aukakostnað fyrir skattgreiðendur og að laun bæjarstjórans, upp á rúmar 2,2 milljónir á mánuði, dygðu vel fyrir rekstri á eigin bifreið. Þessa tillögu felldi meirihlutinn.
Til vara lagði Ingvar til þær breytingar að bærinn útvegaði bæjarstjóranum rafmagnsbíl í staðinn fyrir jeppann. Garðabæjarlistinn teldi mikilvægt að fylgja umhverfisstefnu bæjarins og að bæjarstjórinn færi fyrir með góðu fordæmi í þeim efnum með því að nota umhverfisvænan samgöngumáta. Þessi tillaga var einnig felld sem og þriðja tillagan um að fella út greiðslu fastrar yfirvinnu samkvæmt ráðningarsamningnum í sex mánuði eftir starfslok.
Kaup og kjör bæjarstjórans standa því óhögguð og teljast samþykkt af bæjarstjórn. Fréttablaðið fjallaði um ráðningarsamninginn í vikunni og hvernig ákveðið hefði verið að lækka laun bæjarstjórans um tíu prósent. Var það gert eftir að í ljós kom að honum var ekki heimilt að afsala sér launum sem hann á rétt á sem kjörinn bæjarfulltrúi en Gunnar hafði viðrað slíkar hugmyndir eftir kosningar í ljósi umræðu um há laun hans og annarra bæjarstjóra.

