Félag slökkviliðsstjóra á íslandi vill að sjúkraflutningar verði færðir aftur á forræði sveitarfélaga. Rauði krossinn mun hætta rekstri sjúkraflutninga á næstunni eftir að samningaviðræður samtakanna og heilbrigðisráðherra runnu út í sandinn.
Slökkviliðsstjórar segjast, í ályktun sem send var til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, fyrr í mánuðinum, sammála henni um að mikilvægt sé að endurskoða stefnu í sjúkraflutningum. Benda þeir á að Ríkisendurskoðun hafi bent á það í úttektarskýrslum sínum að þörf sé á heildarstefnu í sjúkraflutningum.
Sjá einnig: Heilbrigðisráðherra skoðar rekstur sérstakrar sjúkraþyrlu
Í áðurnefndri ályktun segir að slökkvilið sveitarfélaga landsins sinnum um 80 prósentum af öllum sjúkraflutningum á landinu, samkvæmt samningum. Þjónustusvæði þessara slökkviliða innihaldi um 80 prósent íbúa landsins.
Lögum samkvæmt sé það sveitarfélaga að reka slökkvilið en ríkisins að reka sjúkraflutninga. Slökkviliðsstjórar segja samlegðaráhrif af þessari starfsemi vera augljós þegar litið sé til mannafla, menntunar, starfsstöðva, búnaðar, afls og styrks.
Í ályktuninni segir að með því að færa sjúkraflutninga aftur á forræði sveitarfélaga, eins og það var árið 1990, væri hægt að tryggja öflugt og samræmt viðbragð á björgunarsviðið með slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum eða vettvangsliðum á vegum slökkviliða.
Innlent