Lífið

Oddvitaáskorunin: „Gjörsamlega grilluð“ af lögreglunni

Samúel Karl Ólason skrifar
Hilda og eiginmaður hennar.
Hilda og eiginmaður hennar.
Vísir stendur fyrir Oddvitaáskoruninni 2018 þar sem skorað er á oddvita allra flokka í kjördæmum um land allt að taka þátt. Áskorunin felur í sér stutta kynningu og að svara nokkrum léttum spurningum. 



Hilda Jana Gísladóttir leiðir lista Samfylkingarinnar á Akureyri í sveitarstjórnarkosningunum.

Ég heiti Hilda Jana Gísladóttir og er 41 árs fyrrum fjölmiðlakona á Akureyri. Ég er menntuð grunnskólakennari en hef lengst af starfað í fjölmiðlum, á Aksjón, Stöð 2, Rúv og nú síðast sem framkvæmda- og sjónvarpsstjóri á N4. Ég er gift Ingvari Má Gíslasyni, fjármálastjóra Norðlenska og formanni KA. Við eigum þrjár yndislegar dætur sem eru 21 árs, 13 og 12 ára gamlar. Við eigum líka bæði hund og kött.

Ég starfaði á mínum yngri árum með jafningjafræðslunni þegar hún var og hét og síðar í forvarnarstarfi á Akureyri. Ég var formaður félags stúdenta við Háskólann á Akureyri, formaður Listhlaupadeildar Skautafélags Akureyrar og sit nú í stjórn Félags kvenna í atvinnulífinu á Norðurlandi. Ég held að mér sé óhætt að segja að ég sé ástríðufull hugsjónakona og brenn fyrir að láta gott af mér leiða.

Ég hef mikla trú á því að með jöfnuði að leiðarljósi getum við bætt samfélagið okkar. Ég býð fram krafta mína í bæjarstjórn Akureyrar vegna þess að ég hef áhuga á því að vinna fyrir samfélagið mitt, hlusta á þarfir þess og einfaldlega leita leiða til að gera Akureyri að besta bæ í heimi.

Hver er fallegasti staðurinn á Íslandi?

Skíðadalur.

Hvar á Íslandi myndir þú helst vilja búa? (Fyrir utan eigið sveitarfélag)

Eyjafjarðarsveit eða Svalbarðsströnd.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Lambalæri að hætti eiginmannsins.

Hvaða mat ert þú bestu/ur að elda?

Alla rétti þar sem uppskriftir fylgja, það er ekkert dass hjá mér.

Uppáhalds „guilty pleasure“ lag?

We run the world (girls) með Beyoncé.

Hvað er það vandræðalegasta sem komið hefur fyrir þig, sem segja má frá?

Þegar ég var unglingur fór ég í sund einu sinni sem oftar og þegar ég kom upp úr sá ég að það var komið risastórt gat á sundbolinn og það á rassinn!! Mig langaði mjög mikið að grafa mér holu og hverfa af yfirborði jarðar.

Draumaferðalagið?

Bali með manninum mínum.

Trúir þú á líf eftir dauðann?

Ég trúi því að ekkert hverfi né birtist heldur skipti aðeins um form. Þar af leiðir að ef sál er til, sem ég tel, þá er í raun ótrúlegra að halda að hún hverfi við dauðann, mun líklegar er að hún umbreytist með einhverjum hætti.

Besti hrekkurinn sem þú hefur gert eða lent í?

Ætli það sé ekki þegar ég sannfærði eiginmanninn um að það væri góð hugmynd mamma myndi syngja í brúðkaupinu okkar. Það vissi eiginlega engin að við mamma værum að bulla í fólki. Pabbi meira að segja tók mig á eintal fyrir brúðkaupið og hafði miklar áhyggjur af því að mamma væri ekkert að æfa sig fyrir stóra daginn! Ég var þó búin að fá Stefán Hilmarsson til að syngja fyrir okkur, en hann er í miklu uppáhaldi hjá manninum mínum. Stefán hafði fyrir því að fela sig upp á svölum í Akureyrarkirkju, stóð síðan skyndilega upp og söng eins og engill. Andlitið á manninum mínum á þessu augnabliki var algjörlega óborganlegt!

Hundar eða kettir?

Ég á bæði hund og kött, ég er ekki viss um að kettinum mínum líki neitt sérstaklega vel við neinn, hvorki menn né dýr. Hundurinn minn hins vegar elskar allar manneskjur og dýr. Þannig ætli ég verði ekki að segja hundar.

Uppáhalds „guilty pleasure“ bíómynd?

Mamma mía.

Hvaða leikari ætti að leika þig í bíómynd?

Geena Davis

Í hvaða Game of Thrones ætt værir þú og af hverju?

Stark og ég tengi sérstaklega vel við Aryu Stark. Af því að Stark ættin er sérstaklega heiðarleg og trú sannfæringu sinni. Ég held líka að Stark ættin myndi setja sitt x við S.

Hefur þú verið tekin/n af lögreglunni?

Ó já!! Ég fór fyrir mörgum árum frá Akureyri á ráðstefnu í Reykjavík og fékk niðurgreiddan ferðakostnað frá þeim sem héldu ráðtefnuna. Ég hafði líka lánað vinkonu minni fyrir ferðinni og fékk því í hendurnar tvær ávísanir upp á nákvæmlega sömu upphæð. Ég trítlaði með ávísanirnar í Íslandsbanka við Lækjargötu, þar var ég síðan bara handtekin, grunuð um ávísanafals!

Ég hélt fyrsta að ég væri stödd í falinni myndavél en ó nei. Ég var leidd út úr bankanum af tveimur einkennisklæddum lögregluþjónum og flutt á lögreglustöðina við Hlemm þar sem við tók yfirheyrsla. Ég er eiginlega viss um að lögreglumaðurinn sem yfirheyrði mig hafi verið nýbúinn að horfa á einum of marga lögregluþætti í sjónvarpinu, ég var gjörsamlega grilluð.

Ég man alltaf þegar lögregluþjónninn barði í borðið og öskraði „Éghef sko séð saklausara andlit en þitt ljúga beint framan í smettið á mér!”.

Ég hringdi í lokum í mömmu og sagði henni stöðuna, þegar lögreglumaðurinn heyrði mömmu tryllast úr hlátri í símanum fór hann að slaka aðeins á. Í ljós kom að ráðstefnuhaldarar höfðu tilkynnt þetta ávísanahefti stolið, fundið það aftur en ekki látið lögregluna vita. Íslandsbanki gaf mér síðan blóm og miða í leikhús í sárabætur, en fólkið sem var í bankanum heldur örugglega enn að ég sé bankaræningi.

Uppáhalds tónlistarmaður?

Leonard Cohen, Damien Rice og Adele.

Uppáhalds bókin?

The subtle art of not giving a f*ck.

Uppáhalds föstudagsdrykkur?

Sódavatn.

Uppáhalds þynnkumatur?

Drekk ekki og þarf því sem betur fer ekki svoleiðis.

Þegar þú ferð í fríið, sólarströnd eða menning?

Bæði er betra.

Hefur þú pissað í sundlaug?

já, þegar ég var barn.

Hvaða lag kemur þér í gírinn?

Get lucky.

Er eitthvað smávægilegt sem farið hefur í taugarnar á þér í þínu sveitarfélagi sem þú vilt laga?

Það pirrar mig oft hvað upplýsingar um ferðir strætisvagna eru óaðgengilegar, ég myndi vilja laga það.

Á að banna flugelda?

Nei, en það má samt leita fjölbreyttari leiða til að gæta öryggis.

Hvaða landsliðsmaður í knattspyrnu værir þú og af hverju?

Anna Rakel Pétursdóttir, af því að hún er baráttujaxl.

Oddvitaáskorunin er hluti af kosningaumfjöllun Vísis. Öllum oddvitum á landinu bauðst að taka þátt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.