Höfundarnir Gísli Örn Garðarsson og Ólafur Egilsson ætluðu upphaflega að setja upp sýningu um bróður hennar, Vilhjálm Vilhjálmsson heitinn. Þegar þeir komu auga á Katrínu Halldóru Sigurðardóttur, sem þá var á lokaári sínu í leiklistarnámi, var hins vegar ekki aftur snúið og ákveðið að Ellý skyldi það vera. Þótti hún nauðalík Ellý, auk þess að hafa sett upp einleik um söngkonuna í náminu.
Þá var ekki annað að gera en að leggjast yfir líf konu sem þeir höfðu aldrei hitt, ræða við aðstandendur og safna saman frásögnum af því sem upp úr stóð í hennar viðburðaríku ævi. Ísland í dag leit við í Borgarleikhúsinu korter í sýningu á dögunum, en þar sagði Ólafur frá einni af sögunum sem þeir heyrðu og var stórt púsl í framvindu sýningarinnar.
Treysti sér ekki í harkið í Kaupmannahöfn
„Ellý er gift Jóni Páli gítarleikara og bóhem sem var fluttur til Kaupmannahafnar til að gera það gott í djassbúllunum í Kaupmannahöfn. Hún var hér heima og er að syngja á héraðsmótum Sjálfstæðisflokksins hringinn í kringum landið með Svavari Gests og Ragga og fleirum og fyrirætlunin, eins og kemur fram í viðtali við hana í Fálkanum, er að hún ætlar til Danmerkur þegar hún er búin með þessa sumarvertíð,“ segir Ólafur.
Frétt Fálkans frá 23. ágúst 1965: RAGNAR BJARNASON MEÐ HLJÓMSVEIT í SÚLNASALNUM-ELLÝ TIL DANMERKUR - SVAVAR í HLJÓMPLÖTUBRANSANN
Af því varð hins vegar ekki, en Ólafur heyrði söguna af því hvernig viðskilnaður hennar og Jóns Páls varð – og rakti frásögnina aftur til einstaklings sem hafði hana frá fyrstu hendi.
„Það voru náttúrulega aðrir tímar og ekki símar. Jón Páll hafði átt von á henni alveg fram á síðustu stundu og það hafi gengið svo langt að hann stóð úti á Kastrup flugvelli með blómvönd og beið eftir henni, en hún kom ekki. Hún kom aldrei, hún hafði tekið þá saman við Svavar og treysti sér ekki í þetta hark í Kaupmannahöfn.“
„Er þetta ekki Ellý stelpan?“
Fámennur hópur leikara bregður sér í fjölmörg hlutverk í sýningunni, en auk Katrínar eru það þau Björgvin Franz Gíslason, Björn Stefánsson, Hjörtur Jóhann Jónsson og Katla Margrét Þorgeirsdóttir sem stíga á svið. Katrín segir það óneitanlega sérstaka tilfinningu að eyða svo miklum tíma í hlutverki hinnar dáðu Ellýjar, sem hún fékk þó aldrei tækifæri til að hitta sjálf.
„Ég er ekki hún, en ég fæ eiginlega alltaf úti á götu: „er þetta ekki Ellý stelpan?“ Þannig að maður er alltaf tengdur við hana núna. Maður er kannski ekki að leika hlutverkið allan daginn, en ég hef hana rosalega nálægt mér í persónutúlkuninni á sviðinu,“ segir Katrín.
Fjallað verður um Ellý í þættinum Ísland í dag.