Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, gerði stöðuna á vinnumarkaði og stöðuna við endurskoðun stjórnarskrár að umtalsefni í ræðu sinni í umræðum um stöðuna í stjórnmálum í byrjun árs á fyrsta þingfundi ársins í dag.
Á meðal þess sem fram kom í máli Katrínar var að á morgun mun átakshópur um húsnæðismál sem hún skipaði fyrir jól kynna tillögur sínar að lausnum á húsnæðisvandanum.
Katrín sagði húsnæðismálin vera forgangsmál enda væri ljóst að þörfin fyrir húsnæði væri mikil.
„Við þurfum að taka höndum saman um að leysa þennan vanda og við þurfum að tryggja fullnægjandi framboð af húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir okkur öll,“ sagði Katrín.
Þá sagði hún jafnframt að stjórnvöld muni á næstunni kynna tillögur sínar að breytingum á skattkerfinu.
„En í tengslum við endurnýjun kjarasamninga fyrir tæpu ári boðaði ríkisstjórnin að þær breytingar sem yrðu gerðar á skattkerfinu myndu miða að því að koma til móts við tekjulægri hópa og tekjulægri millitekjuhópa. Ég bind miklar vonir við það að þær tillögur sem við munum sjá á næstunni, bæði hvað varðar skattkerfið og húsnæðismál, muni greiða fyrir því að lenda kjarasamningum með farsælum hætti á vinnumarkaði,“ sagði forsætisráðherra á Alþingi í dag.
Vonar að tillögur um húsnæðismál og breytingar á skattkerfinu greiði fyrir kjarasamningum

Tengdar fréttir

Karli Gauta heitt í hamsi við upphaf þingfundar: „Þetta er óboðlegt herra forseti“
Þeir Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem eru óháðir þingmenn utan flokka en voru kjörnir á þing fyrir Flokk fólksins, mótmæltu þeirri ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, að úthluta þeim ekki ræðutíma í umræðum um stöðuna í stjórnmálum í byrjun árs sem nú fer fram á þingi.