Innlent

Lögreglan varar við færð í efri byggðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar fólk við því að fara út í umferðina á illa búnum bílum. Færð í efri byggðum sé víða þung. Veðurstofa Íslands vekur athygli á leiðindaveðri sem mun ganga yfir sunnanvert landið um hádegið. Um er að ræða suðvestan storm með éljum og gæti færð og skyggni versnað til muna við það. Veðrið mun þó ganga hratt yfir.

Veðrið í dag af vef Veðustofu Íslands:

Suðlæg eða breytileg átt 5-13 m/s og él, en strekkingur fyrir austan í fyrstu. Kólnandi veður.

Gengur í suðvestan hvassviðri eða storm á S-landi upp úr hádegi með éljum og síðan slydduéljum um tíma. Dregur úr vindi seinni partinn, en allhvöss sunnanátt NA-lands í kvöld og léttir til.

Frost 0 til 8 stig síðdegis, kaldast fyrir norðan.

Vestlæg átt 8-15 m/s SV-lands á morgun, annars mun hægari. Víða él, en yfirleitt léttskýjað á NA-verðu landinu. Frost 1 til 10 stig.

Færð á vegum af vef Vegagerðarinnar:

Suðvesturland: Enn éljar á svæðinu. Hálkublettir eru á stofnbrautum á Höfuðborgarsvæðinu en annars er hálka eða snjóþekja nánast á öllum vegum. Krýsuvíkurvegur er lokaður.

Vesturland: Verið er að hreinsa vegi eftir nóttina. Víða er snjókoma eða éljagangur og snjóþekja eða hálka, raunar þæfingur milli Búða og Hellna. Búið er að opna Fróðárheiði.

Vestfirðir: Verið er að hreinsa vegi og kanna færð. Þæfingsfærð er í það minnsta á Klettshálsi og á Mikladal.

Norðurland: Snjóþekja og hálka víðast hvar enda víða ofankoma.

Norðausturland: Færð er ekki að fullu könnuð en víða er hált, jafnvel flughált s.s. á Mývatnsöræfum og á milli Kópaskers og Raufarhafnar.

Austurland: Hálka til landsins en hálkublettir eða jafnvel greiðfært með ströndinni.

Suðausturland: Víðast nokur hálka eða krapi.

Suðurland: Snjóþekja eða hálka víðast hvar og verið að hreinsa. Lyngdalsheiði er enn lokuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×