Innlent

Leituðu í Rangá að manni sem var saknað eftir þorrablót

Birgir Olgeirsson skrifar
Bátar voru settir á flot til að leita í Rangá en maðurinn skilaði sér kaldur og hrakinn heim um klukkustund eftir að útkallið barst.
Bátar voru settir á flot til að leita í Rangá en maðurinn skilaði sér kaldur og hrakinn heim um klukkustund eftir að útkallið barst. Vísir/Vilhelm
Björgunarsveitarmenn af mest öllu Suðurlandi voru boðaðir út til leitar vegna manns sem var saknað eftir þorrablót á Hellu. Afar slæmt veður var á svæðinu, skafrenningur og kuldi, og var óttast um afdrif mannsins. Var þar á meðal óttast að hann hefði mögulega fallið í Ytri-Rangá sem rennur með fram bænum.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir tugi björgunarsveitarmanna hafa verið boðað út í Árnessýslu og af mest öllu Suðurlandi. Voru bátar settir á flot til að leita í ánni þegar mest var.

Útkallið barst rétt fyrir klukkan fjögur í nótt en til allrar hamingju skilaði maðurinn sér heim rétt fyrir klukkan fimm í nótt en var þá afar kaldur og hrakinn. Þorrablótið fór fram í íþróttahúsinu á Hellu.

Loftmynd af Hellu.Loftmyndir
Rétt fyrir miðnætti barst útkall vegna vélarvana báts sem var fastur í innsiglingunni á Rifi en skipstjórinn náði að losa bátinn áður en hjálp barst.

Um miðnætti lýsti Vegagerðin yfir óvissustigi á Hellisheiði og Þrengslum. Voru björgunarsveitarmenn boðaðir út til að manna lokunarpósta á heiðinni og til að aðstoða fólk sem sat  fast í bílum á Hellisheiðinni. Ferja þurfti fólkið af heiðinni og bílarnir skildir eftir en björgunarsveitarmenn þurftu að færa þá af veginum svo snjómoksturstæki gætu mokað veginn.

Stóðu björgunarsveitarmennirnir við lokanir á Hellisheiði til klukkan níu í morgun.

Nóttin endaði svo á útkalli björgunarsveitarmanna á Austurlandi vegna fólks sem sat fast í bíl í Vatnsskarði við Borgarfjörð eystra í frekar vondu veðri. Fóru björgunarsveitarmenn á vettvang og björguðu fólkinu úr þessum aðstæðum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×