Donald Trump Bandaríkjaforseti var valinn versti leikari ársins á Razzie-verðlaunahátíðinni í dag. Þá var Óskarsverðlaunaleikkonan Melissa McCarthy valin versta leikkonan og kvikmyndin Holmes & Watson valin sú versta í sínum flokki.
Allt það versta á kvikmyndaárinu er heiðrað á Razzie-hátíðinni sem haldin er ár hvert. Áðurnefnd Holmes & Watson, sem skartar Will Ferrell og John C. Reily í aðalhlutverkum, hlaut flest verðlaunin eða fern.
Þá hlaut Trump verðlaunin fyrir „leik“ sinn í kvikmyndunum Death of a Nation og Farenheit 11/9 en hann kom fram í myndunum sem hann sjálfur.
Melissa McCarthy var valin versta leikkona ársins fyrir kvikmyndirnar The Happytime Murders og Life of the Party. McCarthy hlaut þó einnig svokölluð „redeemer“-verðlaun, sem veitt eru þeim sem bætir fyrir laka frammistöðu sína, fyrir leik sinn í kvikmyndinni Can You Ever Forgive Me? en hún er einnig tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt.
Razzie-verðlaunahátíðin er iðulega haldin daginn fyrir Óskarsverðlaunahátíðina, sem fer einmitt fram í Los Angeles annað kvöld.

