Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik 82-103 Stjarnan | Stjarnan áfram í úrslit

Gabríel Sighvatsson í Laugardalshöll skrifar
Telma Lind Ásgeirsdóttir.
Telma Lind Ásgeirsdóttir. vísir/bára
Breiðablik og Stjarnan mættust í undanúrslitum Geysisbikarsins í Laugardalshöll í kvöld. Það var flott mæting og mikil stemning í höllinni.

Fyrirfram var Stjarnan talið sigurstranglegra liðið enda Breiðablik ekki gengið vel í deildinni. Það sýndi sig líka í leiknum.

Stjarnan var of stór biti fyrir Blikana. Jafnræði var með liðunum fyrstu 10-15 mínúturnar en Stjarnan kom sér upp góðu forskoti smám saman og staðan í hálfleik 51-38, Garðbæingum í vil.

Breiðablik hafði ekki það sem til þurfti til að koma til baka og eftir slæman 3. leikhluta var þetta engin spurning. Stjarnan hafði betur, 103-82 og er verðskuldað komin í úrslitaleikinn sem spilaður verður á laugardag.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjarnan hafði gæðin sem þurfti til að vinna í dag. Stjörnukonur voru sigurstranglegar fyrir leik og önnur úrslit höfðu verið óvænt. Stjarnan þurfti engu að síður að mæta til leiks og eiga góðan leik.

Frammistaðan var góð stærstan hluta af leiknum en Breiðablik átti líka flottan leik og á hrós skilið. Það var þó ekki nóg í kvöld, Stjarnan sýndi mikil gæði og héldu einbeitingu þrátt fyrir að vera undir meiri pressu.

Hvað gekk illa?

Breiðablik spilaði ágætan leik en hefur kannski ekki sama mannskap og Stjarnan, þannig að þetta má teljast allt í lagi hjá þeim þó úrslitin hafi ekki verið hagstæð.

Vendipunktur leiksins var líklega þegar 3. leikhluti gekk í garð og vörnin náði ekki að halda aftur af Stjörnunni sem setti 30 stig í þeim leikhluta og setti upp þægilegan 4. leikhluta fyrir sig.

Hverjir stóðu upp úr?

Danielle var frábær eins og svo oft áður hjá Stjörnunni. 33 stig hjá henni, 9 stoðsendingar og 12 fráköst. Hún var afburðaleikmaður á öllum sviðum leiksins og mun hún verða gríðarlega mikilvæg fyrir Stjörnuna í úrslitaleiknum.

Hjá Breiðablik var Sanja Orazovic ansi drjúg en hún setti 27 stig alls, markahæst hjá Blikum.

Hvað gerist næst?

Það kemur í ljós á eftir hvort Snæfell eða Valur fær það hlutskipti að spila við Stjörnuna um bikarinn. Sá leikur fer fram á laugardag en það styttist óðum í hinn undanúrslitaleikinn í dag.

Ragna Margrét: Öðruvísi leikur en allir aðrir

Ragna Margrét Brynjarsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, var himinlifandi með að vera komin í úrslit bikarsins.

„Það er alltaf gaman að komast í úrslit í bikarnum.”

„Þetta er öðruvísi leikur en allir aðrir á tímabilinu. Miklu meiri umgjörð, fleiri sem mæta og það er meiri stemning fyrir leikinn,”

Ragna sagði að frammistaðan hefði verið góð og mikil einbeiting hjá liðinu.

„Við náðum góðu flæði í leiknum okkar, héldum einbeitingu allan tímann og ég held að það hafi skilað sigrinum í dag.”

„Við vorum mjög vel stemmdar í dag. Ætli það hafi ekki staðið upp úr að ná að halda einbeitingu út leikinn.” sagði Ragna að lokum.



Antonio: Við spiluðum frábærlega

„Við spiluðum fyrir framan frábæra stuðningsmenn. Ég hef alltaf sagt, og fjölmiðlar líka, að mesti munurinn á milli okkar og þeirra væri mannskapurinn. Við mættum þeim og gerðum vel. Við spiluðum góðan körfubolta og spiluðum saman. Það var enginn einn sem skoraði flest stigin, við dreifðum boltanum og spiluðum frábær vörn.”

„Við höfðum mikla orku en þegar hún var á þrotum þá var leik lokið.” sagði Antonio d'Albero, þjálfari Breiðabliks að leikslokum.

Antonio var ánægður með frammistöðuna þrátt fyrir að niðurstaðan hafi ekki verið jákvæð

„Því miður er þetta okkar saga þetta tímabilið. Við reynum og reynum en svo erum við búin á því í 4. leikhluta.”

„Það var mikill munur á liðunum, þær eru stærri en við, gátu skipt fleiri mönnum inn á og út af og endurheimt mikla orku, það var ein af ástæðunum.”

Stjarnan reyndist of stór biti fyrir Blikana í kvöld.

„Of stórt, of langt verkefni. Leikmennirnir spiluðu vel, ég er hrifinn af stílnum þeirra, þær eru frábærar og svona á að spila. Við erum enn ung og ætlum að bæta okkur. Við erum ánægð að vera hér, frábær keppni, þetta var gaman fyrir okkur og fyrir stuðningsmennina,”



Pétur Már: Geggjaður liðssigur

Pétur Már Sigurðsson, þjálfari Stjörnunnar, gat verið sáttur með dagsverkið. Hans lið er komið í úrslitaleik Geysisbikarsins eftir sigur gegn Breiðablik.

„Ég er mjög ánægður. Þær stóðu sig vel og fylgdu leikplaninu. Við tókum fullt af fráköstum, spiluðum á móti svæði og skutum fullt af þristum. Við náðum að opna fullt af götum og svæði í vörninni þeirra og varnarlega vorum við í góðum málum.”

„Við reyndum að halda þeim í erfiðum skotum, Sanja (Orazovic) og Ivory (Crawford) eru erfiðar viðureignar en Dani (Danielle Victoria Rodriguez) og Auður (Íris Ólafsdóttir) stóðu sig mjög vel. Hinar "chip-uðu" inn og tóku fullt af fráköstum, þetta var geggjaður liðssigur.”

Stjarnan hafði forystu í hálfleik en þær mættu mjög sterkar til leiks eftir hálfleik.

„Við vorum 13 stigum yfir í hálfleik, það er ekki mikill munur, þetta getur breyst ótrúlega fljótt.”

„Það var markmiðið að koma út fyrstu fimm og auka pressuna, meira "aggression". Við hugsuðum ekki mikið um stigatöfluna heldur reyndum að "execute-a" það sem við vorum að gera á báðum endum vallarins.”

„Það komu kaflar þar sem við misstum aðeins dampinn og ég hefði viljað klára þennan leik aðeins betur. Ég var með óreynda leikmenn inn á í restina en það er bara gott að nota þann tíma að bæta sig, fá reynslu og vera á stóra sviðinu. Þetta var mjög fínt fyrir það.”

Danielle var frábær í kvöld og hefur verið mikilvægur partur af liðinu lengi. Hún mun þurfa að sýna mikilvægi sitt í úrslitaleiknum.

„Hún er búin að gera það í þrjú ár, hún er orðin þekkt í íslenskum körfuknattleik. Það er mikið á hana lagt, hún er frábær varnarmaður, góður sóknarmaður og leiðtogi. Hún finnur liðsfélaga sína vel, hún gerir það alltaf. Ég held það viti allir hvers megnug hún er og hvað hún gerir fyrir okkur.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira