Lífið

Ó­lína orðin bók­mennta­gagn­rýnandi í Kiljunni

Jakob Bjarnar skrifar
Egill grip gæsina á lofti og hefur nú fengið Ólínu til að gagnrýna bækur í bókaþætti sínum.
Egill grip gæsina á lofti og hefur nú fengið Ólínu til að gagnrýna bækur í bókaþætti sínum.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir reynir sig í nýju hlutverki í kvöld, nefnilega sem gagnrýnandi í sjónvarpi.

„Í kvöld mun ég þreyta frumraun mína í Kiljunni hjá Agli. Þar fjöllum við Þorgeir Tryggvason um bækurnar Kaupthinking (Þórður Snær Júlíusson) og Ærumissi (Davíð Logi Sigurðsson). Ýmislegt spennandi verður í þættinum,“ tilkynnir Ólína vinum sínum á Facebook.

Ósátt við að fram hjá henni var gengið

Ólína er ekki á framandi slóðum en hún vakti á sínum tíma þjóðarathygli sem sjónvarpsmaður á Ríkisútvarpinu og hún hefur fengist við að skrifa gagnrýni um bækur.

Ólína var afar ósátt við það þegar fram hjá henni var gengið við skipan stöðu þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum í fyrra og kærði þá skipan.

„Ég velti því fyrir mér hvað kona þurfi að gera til þess að eiga almennt tilverurétt á vinnumarkaði. Góð menntun (doktorspróf), mikil stjórnunarreynsla (samanlögð 10 ár), víðtæk reynsla yfirleitt (úr sveitarstjórn, af alþingi, af skólamálum, vísindastarfi, ritstörum) ekkert af þessu hefur neitt gildi þegar upp er staðið. Ekki heldur þó að beinlínis sé kallað eftir þessari reynslu við auglýsingu starfs. Ekki ef mót-umsækjandinn er karlmaður með réttu vinatengslin,“ sagði Ólína við það tækifæri.

 

Egill greip gæsina

En, nú liggur fyrir að Egill Helgason, stjórnandi bókaþáttarins Kiljunnar, hefur gripið gæsina á lofti; fundið flöt á því að nýta fjölþætta reynslu og menntun Ólínu. Hún segir Kiljuna vera spennandi í kvöld:

„Til dæmis verður fjallað um Kambsmálið, þá ömurlegu atburðarás þegar sýslumannsvaldi var beitt norður í Strandasýslu til að bjóða upp heimili eftir andlát föður, í fjarveru veikrar móður, og börnin ein heima. Þau snerust til varnar. Magnað mál sem nú hefur verið skráð á bók,“ segir Ólína og bætir við: „Já, gamla sýslumannsveldið verður nokkuð til umræðu í þessum þætti.“ Og hún lætur broskall fylgja með þeirri athugasemd sinni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×