Vísir greindi frá því í lok árs 2016 að Nói Siríus hafi um það leyti verið að „þreifa fyrir sér“ í framleiðslu Blás Opals. Sælgætið var tekið af markaði árið 2005 eftir að hætt var að framleiða helsta bragðefnið.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Blár Opal var tekinn úr sölu. Það var til að mynda gert árið 1982 en sælgætið rataði þó aftur á markað tveimur árum síðar. Þá var búið að breyta innihaldinu örlítið. Eftir endurkomuna innihélt Blár Opal 1,4 prósent af aðalbragðefninu, klóróformi. Nýleg reglugerð um þetta leyti setti hámarkið við tvö prósent. Klóróform er þó ekki notað í matvælavinnslu í dag.
Fregnir af yfirvofandi endurkomu Bláa Opalsins í desember 2016 vöktu að vonum athygli enda hafa margir Íslendingar kallað eftir því að hafin verði framleiðsla á Bláum Opal á ný. Nóa Siríus hafa borist ótal áskoranir í áranna rás þess efnis og þá eru jafnframt dæmi um að bláir opalpakkar séu seldir á uppboði fyrir þúsundir króna.
Sent út til greiningar
Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs hjá Nóa Siríus, segir að á þeim tveimur árum sem liðin eru frá fyrri fréttaflutningi hafi verið reynt til hins ítrasta að hefja framleiðsluna aftur - en án árangurs.Ásættanlegt staðkvæmdarbragðefni fyrir klóróform, sem gaf Bláa Opal sinn sérstaka keim, sé hreinlega hvergi fáanlegt. Í leit sinni hafi Nói Siríus til að mynda sett sig í samband við marga af „öflugustu bragðefnaframleiðendum í heiminum“. Þeir hafi jafnvel látið greina Bláa Opalinn, „en ekki haft erindi sem erfiði við að ná að endurgera það einstaka bragð sem var af Bláum Opal,“ segir Auðjón.
Það sé ekki síst hvimleitt í ljósi þess að Opal fagnar 75 ára afmæli á næsta ári. Auðjón segir að því hafi Nóa Siríus verið í mun um að ná að hefja framleiðslu á Bláum Opal. „En það verður að segjast eins og er, að við erum svartsýn á að það takist – þótt við gefumst aldrei upp,“ segir Auðjón.