Menning

Táknmyndin fagra í gulu regnkápunni

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Vart kemur á óvart að ólíkindatólið umdeilda Snorri Ásmundsson beri taugar til umhverfishetjunnar ungu Gretu Thunsberg sem í augum olíufíkinna kolakarla er óttalegt vandræðabarn.
Vart kemur á óvart að ólíkindatólið umdeilda Snorri Ásmundsson beri taugar til umhverfishetjunnar ungu Gretu Thunsberg sem í augum olíufíkinna kolakarla er óttalegt vandræðabarn. Fréttablaðið/Ernir
Greta er táknmynd baráttuanda æskunnar í heimi á heljarþröm sem Snorra fannst eiga að festa á striga. Nordicphotos/Getty
Baráttukonan unga Greta Thunsberg er ekki allra en höfðar svo sterkt til Snorra Ásmundssonar að hann málaði af henni tvö portrett. Honum finnst stórmerkilegt hvernig sumir „nenna að níðast á barninu“ sem eigi svo sannarlega skilið að fá málaða af sér mynd.

Listamaðurinn Snorri Ásmundsson hefur eins og svo margir hrifist af sænsku umhverfisverndarkonunni ungu Gretu Thunsberg og málstað hennar, svo mjög reyndar að hann er búinn að mála af henni tvær myndir eins og honum einum er lagið.

Striginn segir þar sína sögu þar sem Snorri nennir síður en svo að festa hvaða andlit sem er á hann. „Það er svo gaman og svo góð tilfinning að mála hana Gretu. Þetta er svo mismunandi og maður málar nú ekkert alveg hvern sem er,“ segir Snorri í samtali við Fréttablaðið og bætir við að fólk verði helst að hafa eitthvað við sig svo hann nenni að mála það. „Það er extra meira gaman að mála þannig fólk og sumir eiga bara virkilega skilið að fá mynd málaða af sér og hún er alveg þar.“

Íkon í regnkápu

Gretu-myndir Snorra hafa að vonum vakið talsverða athygli og eftirspurnin er mun meiri en framboðið og þannig var guli akrýlliturinn á regnkápu Gretu varla þornaður þegar búið var að selja það verk á safn.

„Ég veit nú ekki hvort ég megi segja hvaða safn keypti þessa mynd en það stendur jafnvel til að selja eftirprentanir af henni þar.“ Líkurnar eru því meiri en minni á að spenntir aðdáendur Gretu geti haft sýn Snorra á hana fyrir augunum alla daga.

Þarna er líka Greta Thunsberg komin í öllu sínu myndræna veldi í regnkápunni með flétturnar sem eru eins og hún sjálf þeirrar náttúru að geta ært óstöðuga afneitunarsinna.

„Hún er náttúrlega bara að verða svakalegt íkon sem er bara svo fallegt,“ segir Snorri um fegurðina sem fólgin er í hinu öfluga andófi barna og unglinga sem Greta leiðir.

Ekki með „fulde fem“

„Umræðan í samfélaginu er bara á svo lágu plani, hvort sem það er í pólitík eða hverju sem er, að það er eiginlega bara ömurlegt. Þetta er alveg stórmerkilegt, hvað fólk nennir að vera að níðast svona á barni sem er að benda á augljósa hluti,“ segir Snorri og botnar ekkert í hávaðanum sem stappar víða nærri sturlun. Ekki síst hjá mörgum miðaldra karlinum.

„Þetta fólk er í rosalega eitthvað miklum varnarstellingum gagnvart öllum breytingum og þessi tilfinningaheift er auðvitað vegna þess að það er einhver ótti. Enginn sem er með „fulde fem“ lætur svona,“ segir Snorri og bætir við að ómögulegt sé að ræða við fólk í þessum ham.



Bragðvond umræða

„Fólk fær bara óbragð í munninn og það nennir enginn lengur að ræða einhverja pólitík. Nema bara eitthvert lasið fólk, held ég. Þau eru heitust og það heyrist mest í þeim,“ segir Snorri og reynir áfram að sálgreina fjandmenn Gretu.

„Þarna er komið eitthvert barn sem berst fyrir þessu málefni og ég veit það ekki, kannski stafar þeim einhver ógn af því að það er barn sem er að setja ofan í við þá?

Ég átta mig ekki á því en við þekkjum nú öll söguna um barnið sem benti á að keisarinn væri nakinn. Börnin eru svo klár og sjá í gegnum þetta, eða það er ekki enn búið að villa um fyrir þeim. Það er nú málið.“

Gretu-mynd Snorra seldist strax og er á leiðinni á safn. Mynd/Snorri Ásmundsson

Reiði kórinn

Snorri þekkir vitaskuld vel af eigin raun, hafandi verið krónískt vandræðabarn og ólíkindatól í listaheiminum og víðar árum saman, hvað fólk getur kallað yfir sig með því að ýfa fjaðrir og strjúka feitum köttum öfugt.

„Ég er alveg með kór af reiðu fólki í kringum mig og þetta hefur alltaf verið svona. Ég má stundum ekki opna munninn og þarf ekki að vera að gera neitt merkilega hluti til þess að gera suma reiða.

Maður er kominn inn í tilfinningalífið hjá þessu fólki. Það er nú málið og kannski elskar þetta fólk mann bara og bregst svona við og áttar sig ekki á því að ást þeirra er svo mikil að hún brýst út í reiði,“ segir Snorri sem deilir þar reynslu með Gretu sem hefur hitt fjölda fólks í hjartastað á meðan aðrir hafa fengið hana á heilann. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×