Lífið

Halle Bailey ráðin í hlutverk hafmeyjunnar Aríel í nýrri mynd frá Disney

Andri Eysteinsson skrifar
Halle Bailey söng meðal annars á Grammy verðlaunahátíðinni í febrúar.
Halle Bailey söng meðal annars á Grammy verðlaunahátíðinni í febrúar. Getty/Kevin Winter
Leikin útgáfa Litlu Hafmeyjunnar er í bígerð hjá Disney en teiknimyndin um Aríel, Úrsúlu, Flumbra, Sæfinn og Skutul kom út árið 1989 og byggir á sögunni eftir Hans Christian Andersen. Independent greinir frá.

Nú hefur 19 ára söngkona verið ráðin til að taka við hlutverki hafmeyjuprinsessunnar Aríel af söng- og leikkonunni Jodi Benson sem ljáði Aríel rödd sína í þremur teiknimyndum auk þáttaraðar. Sú söngkona er Halle Bailey sem syngur ásamt eldri systur sinni í dúettinum Chloe X Halle.

Halle vakti fyrst athygli eftir að ábreiða hennar á Beyonce laginu Pretty Hurts fór í alla króka og kima internetsins árið 2013. Þremur árum síðar hitaði hún upp fyrir Beyonce á tónleikaferðalagi hennar um Evrópu ásamt Chloe systur sinni.

Systurnar endurtóku svo leikinn í Bandaríkjunum í fyrra á tónleikaferðalagi Beyonce og Jay Z, On The Run II.

Systurnar hafa einnig leikið í þáttunum Grown-ish og fluttu þá einnig lagið America the Beautiful fyrir byrjun leiksins um Ofurskálina, Superbowl, í febrúar í ár.

Bailey hefur sagt að hafa hlotið hlutverk Aríelar sé draumur í dós. Leikstjóri verkefnisins, Rob Marshall segir um Bailey að hún hafi einstaka blöndu rétta persónuleikans og stórkostlegrar söngraddar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.