Íslenski boltinn

KR-ingar skilja ekkert í vanvirðingu umferðarinnar

Benedikt Bóas skrifar
Alls staðar vantar merkt hjólastólastæði og sæti fyrir aðstoðarfólk. Ekkert félag er með upplýsingar á aðgengilegu formi, t.d. upplýsingar á heimasíðu, er varðar þá aðstöðu og aðgengi. Þá geti skert sjónlína valdið því að fatlaðir stuðningsmenn missi af mörkum.
Alls staðar vantar merkt hjólastólastæði og sæti fyrir aðstoðarfólk. Ekkert félag er með upplýsingar á aðgengilegu formi, t.d. upplýsingar á heimasíðu, er varðar þá aðstöðu og aðgengi. Þá geti skert sjónlína valdið því að fatlaðir stuðningsmenn missi af mörkum. Mynd/Getty
„Við erum vanir því að þegar okkur gengur vel þá búa menn til eitthvað úr engu,“ segir Sveinbjörn Þorsteinsson starfsmaður hjá KR en fótbolti.net sagði frá atviki á leik KR og Breiðabliks sem vakti töluverða athygli.

Ungur maður í hjólastól hafði þá mætt til að horfa á toppslaginn og verið vísað á þar til gert svæði ásamt föður sínum eða aðstoðarmanni. Í frétt fótbolta.net segir að vallarstarfsmenn hafi svo mætt og, hirt stólinn af þeim sem var með fatlaða drengnum og vísað þeim úr sólinni í skugga og beðið þann sem var með drengnum að fara hinumegin við skiltin.

Fréttin bar heitið Hófið-Vanvirðing umferðarinnar og sköpuðust töluverðar umræður um hana á samfélagsmiðlum þar sem samfélagsmiðlaorð voru höfð uppi um hegðun KR-inga.



Sveinbjörn segir að þarna sé verið að gera úlfalda úr mýflugu. „Mér skilst, á eldri sjálfboðaliða hjá okkur, að hann hefði beðið einstakling í hjólastól að færa sig á þann stað þar sem þeir eru venjulega því viðkomandi hafði farið á vitlausan stað. Þetta var allt gert á rólegum nótum og leystist farsællega.

Fyrir mér er verið að gera úlfalda úr mýflugu. Hann var beðinn um að færa sig fimm metra til hliðar því hann var svolítið nálægt línuvörðunum og var því beðinn um að færa sig þangað sem hann væri ekki í hættu. Þannig upplifðum við þetta.“

Hann bætir því við að hjólastólar hafi verið á sama svæði í fjölda mörg ár og enginn hafi kvartað svo hann viti til. „Hjólastólarnir eru á ákveðnu svæði, nálægt þar sem leikmenn ganga út á völl. Þessi fór svolítið nálægt vellinum og var nánast ofan í hliðarlínunni og aðstoðardómaranum. Þetta var voðalega saklaust – allavega af okkar hálfu.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×