Vífill vann skýrsluna fyrir Samtök sunnlenskra sveitarfélaga en markmið og viðfangsefni skýrslunnar er að veita yfirlit yfir umfang garðyrkju í einstaka landshlutum á Íslandi en þó með áherslu á hlut Suðurlands. Aukinn innflutningur, áskoranir í umhverfismálum, umræða um orkumál og samningar á starfsskilyrðum ýmissa búgreina voru meðal ástæðna þess að ráðist var í skýrslugerðina.
En hvernig er staða garðyrkjunnar á Suðurlandi?
„Þið standið ykkur mjög vel og berið höfuð og herðar yfir alla aðra landshluta. Þið erum með um 67% af öllum rekstrartekjum í greininni og síðan er hluti garðyrkjunnar á Suðurlandi í verðmætasköpun Suðurlads upp undir 2%, sem er all nokkuð af svona atvinnugrein“, segir Vífill.
Meðal niðurstaðna í skýrslunni er að rekstrartekjur garðyrkju á Íslandi voru 6,1 ma.kr. árið 2017 á meðan þær voru 73,2 ma.kr. í öllum landbúnaði á Íslandi. Tekjurnar höfðu aukist um 800 m.kr. á tímabilinu 2008-2017 eða 13% að raungildi, en 13 ma.kr. í öllum landbúnaði.

„Miðað við stöðuna í dag og hvernig hugsunin er með aukinni umhverfisvitund og möguleikarnir núna, eru veruleg viðbrögð erlendis frá vegna þessa hreina vatns sem við höfum hér því grænmetisræktun erlendis er að mestu drifin af óhreinu vatni en við erum með þetta hreina vatn, þá sér maður ekki annað en að framtíðin geti orðið nokkuð björt í þessari grein“.