Körfubolti

Missti pabba sinn rétt fyrir mót en hefur verið einn besti leik­maður deildarinnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Emil Karel Einarsson.
Emil Karel Einarsson. vísir/skjáskot
Emil Karel Einarsson hefur byrjað tímabilið frábærlega með Þór Þorlákshöfn. Hann skoraði 19 stig í sigri Þórsara á Fjölni á föstudagskvöldið.

Hann er að meðaltali með rúmlega sautján stig í leik í fyrstu leikjum tímabilsins og sex fráköst en hann er næstum því með tuttugu framlagspunkta í leik það sem af er tímabilsins.

Strákarnir í Dominos Körfuboltakvöldi ræddu byrjun Emil Karels í þætti sínum á föstudagskvöldið þar sem honum var lofað í hástert.

„Hann er virkilega að svara kallinu. Hann var gagnrýndur mikið í fyrra,“ sagði Kristinn Friðriksson. Benedikt Guðmundsson tók í sama streng og rúmlega það:

„Ég hef aldrei séð hann svona góðan. Ég þjálfaði hann í yngri flokkunum hjá Þór og aðeins í meistaraflokki þegar hann var nítján ára. Það sem gerist þetta svo frábært er að hann er stigahæsti Íslendingurinn í deildinni.“

„Hann var með 6,3 stig að meðaltali í fyrra. Sjáiði bætinguna! Hann er með 53% þriggja stiga nýtingu.“

Benedikt þekkir Emil Karel vel og segir að saga hans þetta tímabilið sé mögnuð og það liggi margar ástæður þar að baki.

„Það sem gerir þetta svo dásamlegt er að hann missir pabba sinn rétt fyrir mót. Hann spilar ekki æfingarleikina fram að móti.“

„Hann kemur inn í þetta mót og það er enginn að segja mér annað að hann sé að halda merki föður síns á lofti. Hver getur ekki haldið með honum núna þennan veturinn? Þetta er að verða frábær saga.“

Innslagið má sjá í glugganum hér að neðan.

Klippa: DK: Emil Karel er ein besta saga tímabilsins





Fleiri fréttir

Sjá meira


×