Minnst 27 létu lífið eftir að eldur kviknaði í gistirými heimavistarskóla í úthverfi Monróvíu, höfuðborg Líberíu í gærmorgun. Fjöldi þeirra voru börn sem stunduðu nám við skólann.
Talið er að eldurinn hafi brotist út snemma morguns á meðan nemendur og starfsfólk skólans sváfu. Moses Carter, talsmaður lögreglu á svæðinu hefur greint fjölmiðlum frá því að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagni og að rannsókn á eldsupptökum haldi áfram.
Vitni að eldsvoðanum greindi fréttastofu breska ríkissjónvarpsins frá því að hann hafi vaknað við eldinn og kallað á aðstoð.
„Þegar ég horfði út um gluggann sá ég eldhaf umlykja bygginguna,“ sagði presturinn Emmanuel Herbert, í samtali við fréttastofuna.
Aðeins einn inngangur var á húsinu og hamlaði eldurinn því að Herbert kæmist þar inn. Yfirvöld hafa upplýst um það að yngstu fórnarlömb eldsvoðans hafi verið tíu ára að aldri.
Börn meðal 27 látinna þegar eldur kviknaði í heimavistarskóla
Eiður Þór Árnason skrifar
