Skoðun

Ert þú með vinnuna í vasanum?

Hrannar Már Gunnarsson skrifar
Fyrirspurnum til stéttarfélaga um vinnu utan vinnutíma hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Á tímum kulnunar og álags vilja starfsmenn vita hvort atvinnurekendur og yfirmenn eigi heimtingu á því að starfsmenn svari vinnutengdum erindum utan vinnutíma, hvort sem er með símtölum, tölvupóstum eða öðrum hætti.

Þessi óljósu skil vinnu og einkalífs hafa orðið mun meira áberandi með snjallsímum og öðrum tækniframförum. Þó tækninýjungar séu almennt af hinu góða hefur snjallsímavæðing leitt til þess að starfsmenn eru margir hverjir orðnir sítengdir vinnustað sínum. Fundarboð, vinnutengdir tölvupóstar og símtöl sem berast utan vinnutíma eru orðinn hluti heimilishalds margra þó slíkt eigi sér stað að loknum fullum vinnudegi.

Flestir kannast orðið við umræðu um kulnun í starfi og önnur vandamál sem tengjast miklu álagi á starfsfólk. Algeng orsök kulnunar er einfaldlega langvarandi streita og of mikil vinna. Það er því alls ekki jákvætt fyrir starfsmenn að vera með vinnuna í vasanum í frítímanum.

Þessi sítenging við vinnustaðinn getur leitt til þess að vinnuveitandi, yfirmenn og samstarfsmenn vita að þeir geta náð í viðkomandi starfsmann hvenær sem er sólarhringsins. Þannig getur skapast mikil togstreita og starfsmaðurinn talið sig ítrekað þurfa að bregðast við erindum utan hefðbundins vinnutíma. Það veldur því að skilin milli vinnutíma og frítíma verða óljós eða eru jafnvel alls ekki til staðar.

Við þessu vill BSRB bregðast með skýrum ákvæðum í kjarasamningum. Launafólk þarf að hafa skýr skil á milli vinnu og einkalífs og það þarf að fá sanngjarna greiðslu fyrir áreiti utan hefðbundins vinnutíma. Verði slík réttindi bundin í kjarasamninga ættu áhrifin einnig að vera þau að áreiti utan vinnutíma minnki til muna, enda væri vinnuveitandi þá að greiða sérstaklega fyrir slíkt ónæði og hefði þar með hvata til að halda því í lágmarki.

Höfundur er lögfræðingur BSRB.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×