Innlent

Ung móðir og barn komust út úr brennandi húsi á Akureyri

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikil mildi er sögð að ekki hafi farið verr.
Mikil mildi er sögð að ekki hafi farið verr. Vísir/Vilhelm
Einn var fluttur á sjúkrahús vegna mögulegrar reykeitrunar eftir að eldur kom upp í kjallaraíbúð í fjölbýlishúsi á Akureyri í dag. Ungri móður tókst að komast út úr húsinu með barn sitt þegar hún varð vör við að reykur kom upp um gólfið á íbúð hennar.

Í tilkynningu frá slökkviliði Akureyrar kemur fram að útkall hafi borist vegna eldsins í kjallaraíbúð í fjölbýlishúsi við Brekkugötu um klukkan hálf tvö í dag. Þegar slökkvilið kom á staðinn voru allir komnir út úr húsinu en þrír höfðu verið þar inni þegar eldsins varð vart.

„Meðal annars var þar ung móðir sem tókst með snarræði að flýja út úr húsinu með barn sitt þegar hún varð vör við að reykur kom upp um gólfið,“ segir í tilkynningunni.

Upptök eldsins voru í eldhúsi í kjallaraíbúð en reykur hafði borist upp allar hæðir hússins. Húsið er gamalt timburhús og átti reykur greiða leið á milli hæða og herbergja. Reykkafarar náðu að slökkva yfirborðseld á nokkrum mínútum en lengri tíma tók að reykræsta og slökkva í glæðum í veggjum.

Hitamyndavél sem slökkviliðið fjárfesti nýlega í var notuð til að finna glæðurnar og segir í tilkynningunni að hún hafi gefið góða raun.

Haft er eftir slökkviliðsstjóra í tilkynningunni að þrátt fyrir að slökkvilið hafi verið fljótt á staðinn hafi verið stutt í að neðstu tvær hæðirnar væru orðnar alelda og mikill reykur hafi verið kominn á þriðju og fjórðu hæð. Mildi hafi verið að ekki hafi farið verr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×