Innlent

„Á ég að vera Gorbachev?“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðni bregður á leik í Höfða í dag.
Guðni bregður á leik í Höfða í dag. Vísir

Forsetahjónin tóku á móti Pence-hjónunum í Höfða upp úr klukkan tvö. Guðni bauð Pence velkominn til landsins og sagðist vona að Pence fengi tilfinningu fyrir þeim gildum sem íslenska þjóðin heldur í heiðri, þar með talið frelsi, fjölbreytileika og virðingu hvert fyrir öðru.



Þá rakti Guðni sögu Höfða og þar kom sagnfræði kunnátta forsetans vel og sagði meðal annars að sagan væri sterk. En nú væri fundað vegna framtíðarinnar. Sagði hann Pence alltaf velkominn til Íslands.



Eftir að Guðni hafði ávarpað varaforsetann að viðstöddum fjölmiðlum tók Pence til máls. Hann þakkaði fyrir hlýjar móttökur og kvaðst hlakka til fundanna í dag. Óskaði hann Íslendingum til hamingju með 75 ára afmæli lýðveldisins og minntist á að þetta væri hans fyrsta heimsókn til Íslands.



Pence lagði áherslu á að samband Íslands og Bandaríkjanna væri sterkt, bæði þegar kæmi að efnahagsmálum og varnarmálum og sagði bönd landanna órjúfanleg (e. unbreakable).



Pence þakkaði Guðna sérstaklega fyrir að taka á móti sér í Höfða, þeim sögufræga stað þar sem Ronald Reagan, þáverandi forseti Bandaríkjanna, og Mikhail Gorbachev, þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, áttu fund árið 1986.



„Já, hér sat Gorbachev og þarna sat Reagan,“ sagði Guðni og benti á stólana þar sem þeir Pence fengu sér svo sæti.



„Á ég að vera Gorbachev?“ grínaðist Guðni svo með við hlátur viðstaddra.



Fylgst er með gangi mála vegna komu Pence í allan dag í vaktinni á Vísi.



Sjá má samskipti forsetans við varaforsetann í spilaranum að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×