Það virðist nefnilega sem það ráðist af því hvort það eru sjálfstæðismenn eða vinstri menn sem fari með völdin í borginni hvort málverkið er haft uppi á veggnum í Höfða eða haft í lokaðri geymslu, hulið almenningi.

Málverkið, þar sem Bjarni horfir haukfránum augum yfir tvo valdamestu menn heimsins, fékk að vera áfram á sínum stað í Höfða næstu árin eftir leiðtogafundinn allt til ársins 1994 þegar R-listinn náði meirihlutanum í borginni undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þá var málverkið tekið niður.
Þegar sjálfstæðismenn komust á ný til valda árið 2006 var það eitt þeirra fyrsta verk að setja málverkið upp aftur. Það var gert með viðhöfn en meðal viðstaddra voru Davíð Oddsson, Björn Bjarnason, sonur Bjarna Benediktssonar, Kjartan Gunnarsson, Birgir Ísleifur Gunnarsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Hannes Hólmsteinn Gissurarson.
Þegar vinstri menn náðu svo næst völdunum var málverkið aftur fjarlægt úr Höfða.
Núna bíða margir spenntir að sjá hvort málverkið af Bjarna verði komið upp á ný í dag í fundarherberginu fræga þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tekur á móti Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna. Ætlunin er meðal annars að fara með varaforsetann í sérstaka sýningarferð um húsakynnin í Höfða.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 fyrir fimm árum þar sem fjallað var um málverkið í tilefni þess að þá stóð til að gera Hollywood-kvikmynd um leiðtogafundinn: