Lögreglan á Norðurlandi eystra hvetur íbúa í umdæminu til að binda niður trampólín og aðra lauslega muni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni í kjölfar þess að henni bárust tilkynningar um „fljúgandi“ trampólín í dag, eins og það er orðað í skeyti lögreglu.
Í ljósi þessa telur Lögreglan á Norðurlandi eystra við hæfi að minna fólk á að festa trampólín sín vel niður og ganga frá þeim svo þau fari ekki á flakk.
Þó nokkuð hvassviðri hefur sést á Norðurlandi í dag og spáði Veðurstofa strekkingsvindi víða á landinu, þar á meðal suðvestan átta til fimmtán metrum á sekúndu á Norðurlandi eystra. Þar á að lægja með kvöldinu ef marka má spá Veðurstofunnar.

