Innlent

Flugdreki talinn trufla flugumferð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri.
Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri. Vísir/Vilhelm
Lögreglan segist hafa fengið fjölbreytt mál inn á sitt borð í nótt. Alls hafi hún verið send í sextíu útköll frá klukkan 17 til 05 í morgun og sex einstaklingar varið nóttinni í fangaklefa.

Karlmaður sem flaug flugdreka í Nauthólsvík í gærkvöld fékk þó áfram að ganga laus eftir samtal sitt við lögreglu. Var honum gefið að sök að trufla flugumferð um Reykjavíkurflugvöll með flugdrekanum, sem hann lét svífa yfir Vatnsmýri á áttunda tímanum í gærkvöldi.

Um 20 mínútum áður en lögreglan skarst í leikinn hafði vél Air Iceland Connect lent á vellinum, vandkvæðalaust ef marka má flugáætlun á vef Isavia. Engin vél var að sama skapi væntanlega næstu tvær klukkustundirnar og því erfitt að sjá að maðurinn hafi sett innlandsflug í uppnám með uppátæki sínu.

Engu að síður ákvað maðurinn að færa sig, en ekki fylgir sögunni hvort hann hafi raskað samgöngum á næsta áfangastað sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×