Lyon varði Evrópumeistaratitil sinn með öruggum sigri á Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Barcelona var að taka þátt í sínum fyrsta úrslitaleik en fékk martraðarbyrjun. Þýska landsliðskonan Dzsenifer Marozsan skoraði eftir aðeins fjögurra mínútna leik.
Þá ákvað besta knattspyrnukona heims Ada Hegerberg að sýna afhverju hún átti Gullboltann skilinn.
Hegerberg skoraði annað mark Lyon á 14. mínútu. Sex mínútum síðar skoraði hún annað mark sitt, og þriðja mark Lyon, af stuttu færi. Hegerberg fullkomnaði svo þrennuna á 30. mínútu, hún skoraði þrjú mörk á sautján mínútna kafla.
Staðan í hálfleik 4-0 og fjórði Evrópumeistaratitillinn í röð á leiðinni til Frakklands.
Eftir að Meistaradeild Evrópu kvenna var sett í núverandi form, með einum úrslitaleik, hafði enginn skorað þrennu í úrslitaleiknum fyrr en Hegerberg mætti til leiks í dag.
Spánverjarnir náðu að halda aftur af Lyon í seinni hálfleik og skoruðu sárabótamark á 89. mínútu, það var Asisat Oshoala sem gerði það, en það var of lítið og allt of seint.
Leikurinn endaði með 4-1 sigri Lyon sem vann Meistaradeild Evrópu fjórða árið í röð.
