Þá sagði Barr að það hefði verið rétt ákvörðun hjá Jeff Sessions, fyrrverandi dómsmálaráðherra, að segja sig frá Rússarannsókninni svokölluðu. Barr var einnig inntur eftir útskýringum á gömlum yfirlýsingum um rannsóknina og sagðist hann ekki vera á þeirri skoðun að Robert Mueller, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins, færi fyrir „nornaveiðum“, eins og Trump hefur ítrekað haldið fram.
Hann sagði það í hag almennings í Bandaríkjunum að Mueller yrði gert kleift að klára rannsókn sína varðandi það hvort framboð Trump hefði starfað með Rússum í viðleitni þeirra til að hafa áhrif á forsetakosningarnar 2016.
„Ég trúi því að Rússar hafi haft afskipti eða reynt að hafa afskipti af kosningunum og ég tel að við verðum að komast til botns í því,“ sagði Barr. Hann sagðist ekki muna víkja Mueller úr starfi, jafnvel þó Trump skipaði honum að gera það.
„Ég mun ekki láta neinn þvinga mig til að gera eitthvað sem ég tel rangt, hvort sem það eru ritstjórnir, þingið eða forsetinn,“ sagði Barr. Hann sagði þó seinna meir að reiði Trump gagnvart Mueller og rannsókn hans væri „skiljanleg“.
Sérstaklega með tilliti til þess að hann skrifaði minnisblað sem dreift var innan Dómsmálaráðuneytisins í fyrra þar sem hann gagnrýndi rannsóknina harðlega. Þá var honum boðið starf í lögfræðiteymi Trump árið 2017 en hann hafnaði boðinu.
Verði Barr staðfestur af þinginu verður þetta í annað sinn sem hann sinnir embætti dómsmálaráðherra en hann gerði það áður fyrir George H.W. Bush.