Lögreglan í Suður-Kóreu hefur handtekið fjóra menn í tengslum við leynilegar upptökur á um 1600 hótelgestum og fyrir að streyma og dreifa efninu á veraldarvefnum.
Samkvæmt suður-kóresku lögreglunni hafði smáum myndavélum verið komið fyrir í sjónvarpstækjum, hárþurrkurum og innstungum í 42 hótelherbergjum á 30 hótelum út um allt landið.
Mennirnir sem grunaðir eru um að bera ábyrgð á málinu eru sagðir hafa grætt sjö milljón won, eða rétt rúmar 730.000 íslenskar krónur fyrir dreifingu myndbandanna á vefsíðu sem var hýst í öðru landi, sem þeir opnuðu á síðasta ári, samkvæmt lögreglu.
Höfuðpaurarnir tveir í málinu eiga yfir höfði sér allt að sjö ára fangelsisvist, verði þeir sakfelldir. Annar þeirra er sakaður um að hafa komið myndavélunum fyrir eftir að hafa dvalið á hótelunum sem gestur. Hinn er sakaður um að bera ábyrgð á birtingu efnisins og að hafa haldið uppi vefsíðunni sem nú hefur verið lokað.
Hinir tveir mennirnir sem sakaðir eru um aðild að málinu eru sagðir hafa tekið þátt í kaupum á myndavélunum eða að hafa stutt við vefsíðuna með fjármagni.
Ólögleg dreifing myndefnis sem tekið er í óleyfi er stórt vandamál í Suður-Kóreu og voru nokkur mótmæli haldin á síðasta ári þar sem þúsundir kvenna mótmæltu og kröfðust aðgerða af hálfu stjórnvalda.
