Íslenski landsliðsmiðherjinn Tryggvi Snær Hlinason og félagar hans í Zaragoza eru í toppbaráttu spænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta þar sem þeir eru í harðri keppni við stórveldin tvö, Real Madrid og Barcelona.
Tryggvi Snær spilaði rúmar 14 mínútur í öruggum sigri Zaragoza á Kirolbet Baskonia, 101-80, á sama tíma og Barcelona vann öruggan sigur á Real Madrid.
Tryggvi gerði fjögur stig í leiknum og fékk sömuleiðis dæmdar á sig fjórar villur. Dylan Ennis fór fyrir Zaragoza í stigaskorun með 19 stig.
Úrslitin þýða að Zaragoza, Real Madrid og Barcelona fara inn í nýtt ár jöfn að stigum; hafa öll unnið tólf leiki og tapað þremur.

