Fótbolti

Vítaspyrnan örlagaríka sú fyrsta sem Rashford tók

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gianluigi Buffon var byrjaður að spila í Meistaradeildinni þegar Marcus Rashford fæddist
Gianluigi Buffon var byrjaður að spila í Meistaradeildinni þegar Marcus Rashford fæddist vísir/getty
Marcus Rashford tryggði Manchester United sögulegan sigur á Paris Saint-Germain í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld.

United tapaði fyrri leiknum í einvígi liðanna í 16-liða úrslitum 2-0 en kom til baka og vann 3-1 á Parc de Princes og fór það með áfram á útvallarmörkum.

Þriðja mark Manchester United skoraði Marcus Rashford af vítapunktinum í uppbótartíma.

Það er nógu taugatrekkjandi að vita það að úrslit einvígisins séu á þínum herðum en það sem meira er, þetta var fyrsta vítaspyrnan sem Marcus Rashford tók fyrir United í keppnisleik.



Marcus Rashford er aðeins 21 árs gamall en hann hefur spilað 159 leiki fyrir aðallið Manchester United og skorað í þeim 43 mörk.

„Þetta snérist bara um að halda ró sinni. Augnablik sem þessi eru það sem við æfum fyrir og ég vildi taka spyrnuna. Þetta eru þessi augnablik sem við lifum fyrir,“ sagði Rashford eftir leikinn.

Paul Pogba hefur verið vítaskytta félagsins undan farið en hann var í leikbanni í þessum leik. Tveir aðrir leikmenn hafa tekið víti fyrir United í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu, Jesse Lingard og Anthony Martial, en þeir voru báðir frá vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×