Innlent

Miðflokksmenn óánægðir með birtingu álits siðanefndar sem sett var á vef Alþingis fyrir mistök

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þingmenn Miðflokksins, þau Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason, náðust öll á Klaustursupptökunum.
Þingmenn Miðflokksins, þau Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason, náðust öll á Klaustursupptökunum. Mynd/Samsett
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmenn Miðflokksins, eru ósátt við að álit siðanefndar á því hvort umræður þeirra og athæfi á barnum Klaustri á síðasta ári falli undir siðareglur Alþingis hafi verið birt á vef Alþingis. Álitið var birt fyrir mistök að sögn skrifstofustjóra Alþingis.

Í álitinu, sem birt var á vef Alþingis klukkan sjö í kvöld, kemur fram að það sé mat meirihluta siðanefndar að samræður þingmannanna fjögurra, Karl Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar á barnum Klaustri sem teknar voru upp og birtar í fjölmiðlum hafi ekki verið einkasamtal þeirra á milli. Ummælin og hegðun sem heyra megi á upptökum falli undir gildissvið siðareglna þingsins.

Í yfirlýsingu á Facebook-síðu Miðflokksins gera fjórmenningarnar hins vegar athugasemdir við að álitið hafi verið birt. Farið hafi verið fram á birtingu þess yrði frestað þar sem andmælafrestur væri ekki liðinn. Auk þess hyggðust þau leggja fram „nýjar og veigamiklar upplýsingar sem sýndu að mat siðanefndarinarinnar væri byggt á röngum forsendum.“

Þar kemur einnig fram að fallist hafi verið á kröfu þingmannanna um að fresta birtingu álitsins, sem engu að síður var birt á vef Alþingis, en yfirlýsingu Miðflokksins má lesa hér fyrir neðan.

Mistök sem gerð voru í tímaþröng

Í samtali við Vísi staðfestir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis að samþykkt hafi verið að fresta birtingu álitsins sem stóð til að birta klukkan sjö í kvöld. Mistök hafi orðið til þess að álitið var birt á vef Alþingis um skamma hríð sem rekja megi til þess hversu stuttu fyrir áætlaða birtingu álitsins beiðni Miðflokksmanna um frestun barst starfsmönnum Alþingis.

„Þau eru gerð í fullkomnu grandaleysi. Það er verið að útbúa eða undirbúa birtinguna því að við vitum ekkert annað en að hún standi fyrir dyrum en sex mínútum áður er sendur póstur. Þremur mínútum fyrir sjö geri ég ráðstafanir sem ég get gert á þeim tíma en það dugði ekki til og þetta var inn á vefnum í tvær til þrjár mínútur,“ segir Helgi.

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Hann segist hafa haft samband við Steinunni Þóru Árnadóttur og Harald Benediktsson, sérstaka varaforseta Alþingis vegna málsins, sem hafi samþykkt að veita Miðflokksmönnum frest til klukkan fjögur á morgun til þess að leggja fram nýjar upplýsingar í málinu. Þá stendur til þess að birta álitið að nýju á vef Alþingis.

„Ég hef strax samband við varaforsetana sem eru með þetta mál sem að sjálfsögðu féllust á þetta og sögðu það að þeir gæfu þá knappan frest til að fá einhver frekari rök í málinu. Það var alveg sjálfsagt mál að fresta birtingunni en svo svo slysalega vildi til að það var verið að hlaða henni inni og hún hékk á vefnum í 2-3 mínútur og var þá tekin út aftur,“ segir Helgi.

Í yfirlýsingu Miðflokksins er vísað í frétt RÚV um álitið sem birtist á vef RÚV klukkan 19.20 og er því haldið fram að fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi fengið upplýsingar um innihald bréfsins. Ljóst er hins vegar að jafn vel þótt starfsmenn Alþingis hafi kippt álitinu af vef Alþingis örfáum mínútum eftir birtingu var hægt að nálgast álitið á vefnum í minnst hálftíma áður en það datt út af vefnum.

Helgi blæs algjörlega á þá staðhæfingu að Ríkisútvarpið hafi fengið upplýsingar um álitið.

„Það er fullkomnlega tilhæfulaust,“ segir Helgi og bætir við að óskað hafi verið eftir því að frétt RÚV um málið yrði fjarlægð þar sem álitið hafi verið birt fyrir mistök. Á vef RÚV kemur fram að ekki hafi verið orðið við þeirri beiðni.

Jón Pétursson, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins sagðist ekki getað gefið upplýsingar um hinar nýju upplýsingar sem fjórmenningarnar minnast á í yfirlýsingunni, þegar eftir því var leitað í kvöld.


Tengdar fréttir

Siðanefnd Alþingis telur samræðurnar á Klaustri ekki einkasamtal

Siðanefnd Alþingis hefur skilað forsætisnefnd áliti vegna Klaustursmálsins svokallaða. Er það mat meirihluta nefndarinnar að samræðurnar sem fóru fram á barnum Klaustri á milli sex þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins geti ekki talist einkasamtal.

Senda formlegt erindi til siðanefndar vegna Klaustursmálsins

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem skipuð voru sem auka varaforsetar Alþingis til að fjalla um Klaustursmálið, senda nú í kvöld formlegt erindi til siðanefndar Alþingis um að nefndin taki málið til skoðunar. Þetta staðfestir Steinunn Þóra í samtali við fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×