Viðskipti erlent

Kínverjar kaupa 300 Airbus-þotur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Maðurinn sér hér þurrka af væng Airbus-þotu í Yichang í Kína.
Maðurinn sér hér þurrka af væng Airbus-þotu í Yichang í Kína. Getty/VCG
Flugvélaframleiðandinn Airbus undirritaði í gær samning um að selja kínverska ríkinu 300 þotur. Gengið var frá samningnum meðfram opinberri heimsókn Kínaforseta, Xi Jinping, til Frakklands en talið er að samningsupphæðin nemi um 30 milljörðum evra.

Samningurinn milli Airbus og kínversku ríkisflugvélaleigunnar CASC felur í sér kaup þess síðarnefnda á 290 A320-þotum og tíu A350 breiðþotum. Fjöldinn er töluvert meiri en greinendur höfðu gert ráð fyrir en ekki hafði verið búist við því að samningurinn yrði sambærilegur þeim sem CASC undirritaði við Boeing árið 2017. Hann hljóðaði jafnframt upp á kaup á 300 þotum, alls 260 Boeing 737-vélum og 40 787/777.

Samningurinn sem CASC undirritaði við Airbus í París í gær er af greinendum talinn marka endalok ákveðins „þurrkatímabils“ í opinberum innkaupum Kínverja. Þeim hafi ekki tekist að ganga frá slíkum ógnarsamningum á síðustu misserum, meðfram hatrömmu viðskiptastríði sínu við Bandaríkin sem unnið er að leysa að þessi dægrin.

Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hafði jafnvel gert sér í hugarlund að geta gengið frá öðrum 2017-samningi við Kínverja eftir að búið væri að höggva á viðskiptastríðshnútinn. Kyrrsetning Boeing 737-MAX vélanna á síðustu vikum og Airbus-samningurinn eru þó talin draga stórkostlega úr líkunum á því að Kínverjar kaupi þotur frá Boeing á næstunni.


Tengdar fréttir

Hugbúnaðaruppfærsla Boeing skref í átt að flugi

Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair segir að leit að leiguvélum standi yfir til að bregðast við þeirri stöðu sem getur komið upp ef Max vélar félagsins verði áfram kyrrsettar. Hugbúnaðaruppfærsla Boeing sé skref í þá átt að heimila flug vélanna á ný.

Max á réttri leið með uppfærslu

Bandaríska loftferðaeftirlitið, FAA, hefur gefið forsamþykki fyrir uppfærslu Boeing á stýrikerfi 737 Max-þotanna sem nú hafa sætt kyrrsetningu í meira en tíu daga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×