Viðskipti innlent

Ilvu bannað að hafa vörur á útsölu lengur en í sex vikur

Andri Eysteinsson skrifar
Útsala verslunarinnar Ilvu stóð yfir lengur en heimilt er samkvæmt lögum.
Útsala verslunarinnar Ilvu stóð yfir lengur en heimilt er samkvæmt lögum. Samsett/Ilva/Hanna
Neytendastofa hefur bannað húsgagnaversluninni Ilvu að hafa vörur á útsölu lengur en í sex vikur. Bannið kemur í kjölfar ábendingar frá neytendum þar sem fram kom kvörtun yfir því að lengd útsölu bryti í bága við lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu auk reglna um útsölur eða aðra sölu þar sem selt er á lækkuðu verði.

Í reglunum segir„ Þegar vara eða þjónusta hefur verið seld á lækkuðu verði í sex vikur skal lækkað verð vera venjulegt verð“

Neytendastofa óskaði því eftir skýringum frá Ilvu og ítrekaði ósk sína í byrjun mars. Í svari frá versluninni Ilvu staðfesti félagið að umrædd útsala hafi staðið yfir í lengri tíma en gert er ráð fyrir í lögum eða frá 22. desember 2018 til 10. febrúar 2019.

Á meðan útsölunni stóð hafi verð lækkað jafnt og þétt til síðasta dags. Einnig hafi útsala Ilvu í Danmörku staðið yfir í svipaðan tíma. Félagið elti markaðsefni Ilvu í Danmörku en hafi passað sig á útsölulengd hingað til. Segir að félagið muni virða sex vikna tímamörkin framvegis.

Neytendastofa bannaði því Ilvu að hafa vörur á útsölu lengur en í sex vikur, fari verslunin ekki að banninu má búast við sektum, segir í ákvörðun Neytendastofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×