Pepsi Max deildinn hefst í kvöld með leik Vals og Víkings á Origovellinum. Eins og síðustu ár voru Pepsi Max Mörkin með sinn upphitunarþátt þar sem opinberuð var spá og rætt við þjálfara.
Allir tólf þjálfarar deildarinnar mættu í beina útsendingu í setti Stöðvar 2 Sport, þeirra á meðal Rúnar Kristinsson.
Markvarsla KR-inga skoraði ekki hátt í einkunnagjöfinni sem var grunnurinn að spá Pepsi Max Markanna. Rúnar var þó ekki sammála því.
„Beitir er búinn að bæta sig alveg gríðarlega frá því í fyrra,“ sagði Rúnar.
„Ég held að Beitir sé besti markmaðurinn á Íslandi í dag,“ hélt Rúnar áfram, en þetta eru ansi stór orð í ljósi þess að landsliðsmarkvörður Íslands, Hannes Þór Halldórsson, er kominn í deildina.
„Hann er búinn að vera frábær fyrir okkur í vetur og hentar okkar leikstíl gríðarlega vel. Ég hefði ekki kosið að hafa neinn annan í marki KR í sumar en hann.“
Hvort Beitir nái að standa undir orðum þjálfarans kemur í ljós í sumar en KR hefur leik í Pepsi Max deildinni á morgun í stórleik umferðarinnar þegar þeir svarthvítu sækja Stjörnuna heim á teppið í Garðabæ.