Sigurður Ingi Jóhansson, samgönguráðherra, hafði boðað þingmenn höfuðborgarsvæðisins á samráðsfund um fyrirhugaðar endurbætur í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu klukkan þrjú í dag. Á sama tíma stóð til að ræða tekjuskatt og sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki á Alþingi.

Hvassyrtur Steingrímur
Undir liðnum fundarstjórn forseta kváðu nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar sér hljóðs og viðruðu óánægju með það að fundurinn í ráðuneytinu væri boðaður á sama tíma og þingfundur stæði yfir. Þar á meðal var Þorgerður Katrín. Til snarpra orðaskipta kom á milli hennar og Steingríms sem stýrði þingfundi.„Af hverju í ósköpunum getur ríkisstjórnin ekki skipulagt sig betur og meira í samvinnu við og af virðingu við Alþingi Íslendinga?,“ sagði Þorgerður Katrín og var heitt í hamsi. „Það er boðaður fundur á eftir uppi í ráðuneyti sem gengur út á það að hækka skatta á Suðvesturhornið. Er verið að reka okkur þingmenn Suðvesturhornsins frá þinginu á meðan?“
Þá tók Steingrímur til máls og mæltist til þessað skattamál yrðu rædd þegar þau væru á dagskrá þingsins, sem væri á eftir.
„Af hverju er ekki færi á að ræða þau?“ skaut þá Þorgerður Katrín inn í ræðu Steingríms.
„Það fellur tæplega undir fundarstjórn forseta að fara út í efnislega umræðu um skatta,“ svaraði Steingrímur.
„Ég vil fá það skriflegt,“ sagði Þorgerður Katrín þá áður en Steingrímur náði orðinu aftur, nokkuð hvassyrtur.
„Forseti stendur ekki orðaskiptum við þingmenn. Forseti segir það sem hann vill segja og þingmenn hlusta,“ sagði Steingrímur.
„Það er málfrelsi hér í þinginu,“ skaut Þorgerður Katrín inn í áður en Steingrímur svaraði með orðunum „Ekki í frammíköllum við forseta.“

Fundinum að lokum frestað
Næst tók til máls Halldóra Mogensem þingmaður Pírata, sem sagðist vera hissa á framkomu Steingríms.„Ég verð að viðurkenna að það fýkur dálítið í mig þegar ég sé forseta koma svona fram. Það er ítrekað verið að segja okkur hvernig og hvar við megum tjá okkur í þessum þingsal og það er óþolandi. Ég er þá búin að koma því frá,“ sagði Halldóra og óskaði eftir því að þingfundi yrði frestað svo þingmenn gætu farið á samráðsfund samgönguráðherra.
Steingrímur svaraði Halldóru með því að taka undir gagnrýni þingmanna á tímasetningu samráðsfundarins og sagði „ómögulegt að ráðuneyti boði stóran hluta þingmanna á fund á þingfundartíma“ og við það myndi hann gera athugasemdir.
Að lokum kom fram í máli Steingríms að hann hefði farið fram á það að þeim boðum yrði komið á framfæri við samgönguráðuneytið að fresta ætti samráðsfundinum, sem hefjast átti klukkan þrjú.