Það hefur ekki legið fyrir af hverju Patterson ákvað að ræna Closs og myrða foreldra hennar en í dómsskjölum kemur fram að hann virðist hafa valið hana af handahófi. Saksóknarar segja Patterson ekki hafa séð Closs áður né hafi hann vitað hver hún væri þegar hann sá hana fyrst.
Hann hafi þó þegar í stað ákveðið að ræna henni og undirbjó hann sig vel fyrir mannránið. Meðal annars rakaði hann af sér allt hár, til að vera fullviss um að hann myndi ekki skilja hár eftir á vettvangi glæpsins.
Í áðurnefndum skjölum, sem NBC News vitna í, kemur einnig fram að lík föður Closs hafi fundist við útidyr heimilis þeirra og hann hafi verið með verulega áverka á höfði og andliti. Þá höfðu Closs og móðir hennar falið sig í baðkari þeirra. Patterson hefur viðurkennt að hafa sparkað upp hurðina, bundið Closs og skotið móður hennar í höfuðið með haglabyssu.
Hann lá ekki undir grun vegna morðanna og mannránsins, fyrr en Closs slapp og benti lögregluþjónum á hann. Þegar Patterson var handtekinn virðist sem hann hafi verið að keyra um hverfið og leita að stúlkunni.
Frænkur Jayme Closs ræddu við CBS um málið og það að hún hefði fundist.