Erlent

Kanadískur karlmaður dæmdur til dauða í Kína

Kjartan Kjartansson skrifar
Stirt er á milli stjórnvalda í Kína og Kanada þessa dagana.
Stirt er á milli stjórnvalda í Kína og Kanada þessa dagana. Vísir/EPA
Kínverskur dómstóll dæmdi í dag kanadískan karlmann til dauða vegna fíkniefnasmygls. Saksóknarar héldu því fram að fimmtán ára fangelsisdómur sem hann hafði hlotið væri of vægur. Mál mannsins er talið reyna enn á tengsl ríkjanna tveggja.

Robert Lloyd Schellenberg var dæmdur til dauða í Liaoning-héraði í norðausturhluta Kína, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Honum var sagt að hann gæti áfrýjað dómnum innan tíu daga. Lögmaður hans segir að það muni hann að öllum líkindum gera.

Samskipti Kína og Kanada hafa verið stirð eftir að kanadísk yfirvöld handtóku Meng Wanzhou, aðstoðarfjármálastjóra kínverska tæknirisans Huawei, að beiðni bandarískra stjórnvalda í síðasta mánuði. Síðan þá hafa Kínverjar handtekið nokkra Kanadamenn til viðbótar og sakað þá um að stefna öryggi ríkisins í hættu.

Bandarísk stjórnvöld saka Huawei um að hafa brotið gegn viðskiptabanni við Íran.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×