Íslenski boltinn

Margrét Lára leggur skóna á hilluna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Margrét Lára fagnar Íslandsmeistaratitlinum með Val.
Margrét Lára fagnar Íslandsmeistaratitlinum með Val. vísir/daníel
Margrét Lára Viðarsdóttir, markahæsti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta frá upphafi, hefur lagt skóna á hilluna. Hún er 33 ára.

Margrét Lára varð fjórum sinnum Íslandsmeistari með Val, síðast í haust, og einu sinni bikarmeistari. Þá varð hún fimm sinnum markadrottning efstu deildar.

„Ákvörðunin að leggja skóna á hilluna var langt frá því að vera mér auðveld. Ferillinn hefur verið draumi líkastur og ef einhver hefði sagt mér að ég hefði átt eftir að vinna alla þessa titla með liðum mínum og sem einstaklingur þá hefði ég aldrei trúað því,“ segir Margrét Lára í yfirlýsingu frá Val.

„Titlarnir eru eitt en allt það frábæra fólk sem ég hef kynnst í fótboltanum er það sem stendur upp úr. Ég er óendanlega þakklát fyrir allt, en kveð með trega og mjög sátt.“



Margrét Lára lék með Duisburg og Turbine Potsdam í Þýskalandi og Linköping og Kristianstad í Svíþjóð. Hún varð markahæst í sænsku deildinni 2011.

Eyjakonan skoraði 79 mörk í 124 landsleikjum á árunum 2003-19. Hún skoraði bæði í fyrsta og síðasta landsleiknum sínum. Sá síðasti var 0-6 sigur á Lettlandi 8. október.

Í 143 leikjum í efstu deild á Íslandi skoraði Margrét Lára 207 mörk. Þá skoraði hún 18 mörk í 21 bikarleik og 21 mark í tólf Evrópuleikjum.

Margrét Lára var útnefnd Íþróttamaður ársins 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×