Körfubolti

KR áfram á toppnum │Fjörutíu stiga sigur Vals

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
KR-ingar eru að gera gott mót.
KR-ingar eru að gera gott mót. fréttablaðið/sigtryggur ari
KR heldur toppsætinu í Domino's deild kvenna eftir tíu stiga sigur á Haukum. Valur burstaði Skallagrím og Keflvíkingar höfðu betur gegn Stjörnunni.

KR er áfram eitt á toppi Domino's deildar kvenna eftir 80-70 sigur á Haukum í Hafnarfirði í kvöld. Kiana Johnson átti stórleik fyrir KR og skoraði 35 stig.

Vesturbæingar lögðu grunninn að sigrinum strax í fyrsta leikhluta en heimakonur í Haukum náðu aðeins að setja níu stig í fyrsta leikhlutanum á meðan KR skoraði 22. Staðan í hálfleik var 30-37 fyrir KR.

Nýliðar KR eru því með 24 stig eftir 15 leiki.

Á Hlíðarenda sáu Skallagrímskonur aldrei til sólar þegar þær sóttu heimakonur í Val heim.

Valur vann alla leikhlutana í leiknum og leikinn sjálfan svo sannfærandi 83-43. Heather Butler var stigahæst Valskvenna með 16 stig en Dagbjört Dögg Karlsdóttir og Ásta Júlía Grímsdóttir fylgdu þar fast á eftir með 14 og 12 stig hvor. Allir leikmenn vals nema einn komust á blað í kvöld.

Stjarnan sótti Keflvíkinga heim í leik sem byrjaði á mikilli vörn. Aðeins 19 stig voru skoruð í fyrsta fjórðungnum en staðan að honum loknum var 7-12 fyrir Stjörnunni.

Jafnt var með liðunum alveg fram í síðasta fjórðunginn en þá stigu heimakonur á bensíngjöfina og unnu að lokum 68-59 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×