Erlent

Guterres ósáttur við aðgerðaleysi sumra ríkja

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Framkvæmdastjórinn heilsar forsætisráðherra Spánar í Madríd í dag.
Framkvæmdastjórinn heilsar forsætisráðherra Spánar í Madríd í dag. Vísir/AP
Fulltrúar nærri 200 ríkja eru mættir á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hófst í Madríd í dag. Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði viðbrögðin við loftslagsvánni hafa valdið sér vonbrigðum.

Guterres sagði að þótt loforðin um kolefnishlutleysi fyrir 2050 hafi verið góð sé hann ósáttur við þá aðila sem hafa ekki tekið þátt. „Það sem veldur mér vonbrigðum eru þau sem hafa ekki skuldbundið sig og því miður stöndum við enn frammi fyrir alvarlegu vandamáli varðandi þau sem menga mest. Það er algerlega nauðsynlegt að þau sem menga mest 2020 sætti sig við þá hugmynd að þau verði að draga verulega úr útblæstri á næstu áratugunum og verði orðin kolefnishlutlaus árið 2050,“ bætti hann við.

Í opnunarávarpi sínu sagði framkvæmdastjórinn svo að eitt helsta markmið fundarins væri að undirbúa ríki heims undir nýja aðgerðaráætlun sem á að líta dagsins ljós á næsta ári.

Nýir leiðtogar Evrópusambandsins voru á meðal þeirra sem tóku til máls í dag. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði stefnt að meiriháttar, sjálfbærum fjárfestingum. „Við munum leggja fram evrópska áætlun um sjálfbærar fjárfestingar sem mun tryggja fjárfestingar upp á eina trilljón evra næsta áratuginn,“ sagði hún.

Og Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, var í baráttuhug. „Við höfum komið plánetunni okkar niður á hnén. Núna verðum við að gerbreyta því hvernig við gerum hlutina.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×