Innlent

379 nýstúdentar útskrifaðir frá MR

Andri Eysteinsson skrifar
Tveir árgangar voru útskrifaðir úr MR á föstudag.
Tveir árgangar voru útskrifaðir úr MR á föstudag. Vísir/Stefán
Menntaskólanum í Reykjavík var slitið í 174. sinn við brautskráningu stúdenta í Háskólabíó laugardaginn 31. maí. Brautskráðir voru alls 379 nýstúdentar og hefur slíkur fjöldi aldrei áður útskrifast úr Menntaskólanum á einum og sama deginum.

Ástæðan fyrir því er sú að útskrifaðir voru tveir árgangar, annars vegar síðasti árgangurinn sem stundaði nám við skólann undir fjögurra ára kerfinu og hins vegar fyrsti árgangurinn sem gekkst undir þriggja ára nám við skólann.

Dúx 6. Bekkjar (4 ára nám) að þessu sinni var Unnur Ásta Harðardóttir sem útskrifaðist með aðaleinkunn upp á 9,71. Unnur stundaði nám við málabraut skólans. Semidúx árgangsins var Þorvaldur Ingi Elvarsson með 9,55.

Dúx VI. bekkjar (3 ára nám) að þessu sinni var Sædís Karolina Þóroddsdóttir sem útskrifaðist með aðaleinkunn 9,84, semídúx árgangsins var Ólafur Cesarsson með 9,75.

Fjölmargir afmælisstúdentar voru viðstaddir athafnirnar, Páll Bergþórsson, fyrrverandi veðurstofustjóri hélt tölu fyrir hönd 75 ára stúdenta og Ögmundur Jónasson fyrrverandi ráðherra flutti erindi fyrir hönd 50 ára stúdenta. Fyrir hönd 25 ára stúdenta talaði Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

Elías Ólafsson, Skarphéðinn P. Óskarsson og Sigríður Jóhannsdóttir kennarar láta af störfum eftir þetta skólaár ásamt Ragnhildi Blöndal, yfirbókaverði á Íþöku, og Bjarna Gunnarssyni konrektor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×