Erlent

Fjöldi dauðra hvala á ströndum er vísindamönnum ráðgáta

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mögulegt er að sandlægjustofninn sé orðinn eins stór og hann getur orðið.
Mögulegt er að sandlægjustofninn sé orðinn eins stór og hann getur orðið. Natalie Fobes/Getty
Vísindamenn á vegum bandarísku ríkisstjórnarinnar hafa hafið rannsókna á miklum fjölda dauðra sandlægja (e. grey whale) sem skolað hefur upp á vesturströnd Bandaríkjanna. Um 70 hvalir hafa fundist á ströndum Kaliforníu, Washington, Oregon og Alaska frá áramótum en jafn mörgum dauðum sandlægjum hefur ekki skolað upp á þessum slóðum síðan árið 2000.

Vísindamenn eru uggandi yfir þessum fjölda dauðra hvala sem fundist hafa og telja dýrin aðeins vera brot af þeim heildarfjölda sandlægja sem drepist hafa á árinu, þar sem flest hvalshræ sökkva beint á sjávarbotninn.

Útvegsmáladeild sjávar- og andrúmsloftsstofnunnar Bandaríkjanna segir þessa háu dánartíðni hvalanna óvenjulega og að frekari rannsókna sé þörf.

„Margir hvalanna hafa verið horaðir og vannærðir, en það bendir til þess að þeir hafi ekki fengið nóg að éta á síðasta átutímabili á norðurskautinu,“ sagði talsmaður stofnunarinnar, Michael Milstein, í samtali við Guardian.

Sandlægjur eru skíðishvalir sem nærast nánast eingöngu á fimm mánaða tímabili frá maí fram í október. Á því tímabili er eðlilegt að meðalsandlægja éti rúmlega tonn á dag af ýmsum botndýrum, svo sem burstaormum, kuðungum, samlokum og sæbjúgum, auk síla og síldartegunda.

Sandlægjustofninn hefur síðasta áratuginn mælst í um 27 þúsund dýrum, því hæsta síðan mælingar hófust árið 1967. Tegundin var nálægt útrýmingu þar sem gríðarlega miklar veiðar á stofninum fóru fram á seinni hluta nítjándu aldar. Sandlægjan var friðuð árið 1946 og mælist stofninn nú, eins og áður segir, fjöldameiri en nokkru sinni fyrr.

Óvíst er hvort stofninn hefur einfaldlega náð þeim hámarksfjölda sem búsvæði þeirra býður upp á eða hvort bráðnun íss á norðurhveli jarðar sé um að kenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×