Viðskipti innlent

Flugmenn látnir fjúka

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Icelandair bregst við kyrrsetningu.
Icelandair bregst við kyrrsetningu. Fréttablaðið/Ernir
Icelandair sagði í gær upp 45 flugmönnum. Í tilkynningu frá félaginu kom fram að um væri að ræða 21 nýliða. Þeir hefðu hafið störf sem flugmenn á Boeing 737 MAX-vélum félagsins í sumar. Flugfélagið tilkynnti uppsagnirnar á fundi með hópi flugmanna í þjálfun. Þá var einnig ráðningarsamningum slitið við 24 flugmenn sem hófu þjálfun á MAX-vélarnar síðasta haust.

Ákvörðunin var tekin í ljósi þess að félagið gerir ekki ráð fyrir MAX-vélunum í flugáætlun sinni fyrr en um miðjan september næstkomandi, eins og fram kom í tilkynningu frá félaginu þann 24. maí síðastliðinn.

„Það er þungbært að þurfa að grípa til þessarar sársaukafullu aðgerðar en við teljum það nauðsynlegt í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem komnar eru upp vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX vélanna,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.

„Kyrrsetningin hefur talsverð neikvæð áhrif á rekstur félagsins og við verðum að leita allra leiða til að hagræða og draga úr kostnaði. Við vonumst þó til að geta gefið þessum flugmönnum kost á starfi hjá fyrirtækinu á ný þegar undirbúningur fyrir næsta sumar fer af stað en það kemur betur í ljós þegar málin skýrast varðandi MAX-vélarnar.“

Icelandair mun bjóða aðstoð við atvinnuleit í samstarfi við ráðningastofu.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×