Innlent

Búið að opna Hellis­heiði

Atli Ísleifsson skrifar
Vegir eru enn lokaðir víða um land.
Vegir eru enn lokaðir víða um land. Vegagerðin

Búið er að opna Hellisheiði og veg um Þrengsli. Vegirnir hafa verið lokaðir frá síðdegis í gær.

Frá þessu segir á veg Vegagerðarinnar, en vegir um Sandskeið og Þrengsli voru opnaðir nokkru á undan Hellisheiðinni.

Lokanir á vegum hafa verið sérstaklega miklar á landinu síðasta rúma sólarhringinn vegna óveðursins sem gengur yfir landið.

Færð á vegum á Suðvesturlandi.vegagerðin

Á Vesturlandi eru vegir í nágrenni Borgarness færir og einnig er að mestu fært á Snæfellsnesi. Vegir um Bröttubrekku og Holtavörðuheiði eru þó enn lokaðir vegna veðurs.

Á Norðurlandi eru vegir meira og minna ófærir eða lokaðir. Sömuleiðis á Austfjörðum er víða lokað. Þannig eru Fjarðarheiði og vegur um Fagradal enn lokaðir.

Á Suðurlandi er búið að opna hringveginn austur að Vík í Mýrdal en vegurinn þar fyrir austan er enn lokaður. Eins er verið að hreinsa í uppsveitum Suðurlands.

Á Suðausturlandi er lokað frá Vík og austur á Djúpavog en reynt verður að opna kaflann frá Höfn og að Djúpavogi um klukkan 15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×